Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

Þriðjudaginn 30. maí 2006, kl. 14:32:47 (8370)


132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

[14:32]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina gagnrýni minni að virðulegum forseta, þeirri sem hér situr. Hér hafa verið lagðar fram fyrirspurnir til hæstv. forseta um hvernig vikan sé hugsuð og dagskrá hennar, hve lengi eigi að halda áfram í dag og hver hugsun hæstv. forseta og þeirra sem stýra þinghaldinu sé varðandi framhaldið á þessu sumarþingi.

Það kom fram hjá hv. þingmanni, formanni þingflokks Sjálfstæðisflokksins, að engar tillögur hefðu komið frá þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar um þinghaldið. Það er ekki rétt. Rétt áður en við fórum í þinghlé höfðum við lýst því yfir hvaða mál það væru sem við vildum að yrðu látin bíða til haustsins. Ríkisstjórnin leggur hér fram 108 mál sem á eftir að afgreiða og það hefur ekkert verið rætt við okkur um það hver staða hvers máls sé innan okkar raða. Við getum lítið sagt um það á þeim 20 mínútum sem fundur stendur.

Ég held, hæstv. forseti, að ef spurningunum hefði verið svarað strax í upphafi um hvernig hæstv. forseti hugsi framhaldið, í dag og í vikunni, en sæti ekki bara hér og stæði upp til að gefa orðið, heldur svaraði því sem til hæstv. forseta er beint hefði mátt stytta þessar umræður um fundarstjórn forseta.