Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

Þriðjudaginn 30. maí 2006, kl. 14:35:31 (8372)


132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Störf iðnaðarnefndar, þinghaldið fram undan o.fl.

[14:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég verð að gera mjög alvarlegar athugasemdir við það hvernig forseti túlkar stöðu sína gagnvart þinginu. Það er ekki þannig að forseti eigi að tilkynna þinginu hvernig þingstörfum skuli vera háttað. Það stendur hvergi í þingsköpum. Það stendur einmitt þveröfugt, eins og ég las hér upp áðan. (Gripið fram í.) Þetta er einmitt um fundarstjórn forseta og hvort forseti hafi yfirleitt umboð til þess að stjórna hér þingi undir þeim valdsjúku ráðherrum sem hér eru. Meira að segja hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sem hér hrópar fram í finnur hjá sér skömmina. (Gripið fram í.) Þannig er að samkvæmt þingsköpum ber forseta að hafa, með leyfi forseta:

„… reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.“

Stendur þarna að það eigi að vera í formi tilskipana? Nei. En þannig er að þegar forseti talaði hér áðan um að boðað hefði verið til fundar í forsætisnefnd í morgun og með þingflokksformönnum um hádegisbilið þá kom dagskrá þingsins fram í gær, seinni partinn, þegar gengið hafði verið frá hrossakaupunum um stjórn Reykjavíkurborgar. Þá kemur dagskráin fram, beið eftir því að klukkan slægi fjögur eða fimm, hvenær sem þessi hrossakaup fóru nú fram. Þá senda ráðherrarnir, formenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, væntanlega tölvupóst til forseta um að nú megi hæstv. forseti birta dagskrána. Svona er þetta nú bara, því miður.

Í þingsköpum stendur allt annað, þar stendur að forseti skuli hafa samráð. Enn fremur stendur hér í 72. gr., með leyfi forseta:

„Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar.“

Ég get ekki séð að forseti hafi neitt haft reglulegt samráð þótt kallað sé til málamynda til fundar til að gefa út tilskipanir um hvað forseti hafi fengið tilskipun um að boða þingmönnum. Nei, hér skal keyra í gegn einkavæðingarfrumvörpin, einkavæðingu Ríkisútvarpsins sem Framsóknarflokkurinn hefur hvað eftir annað ályktað á flokksþingum sínum um að ekki skuli einkavæða. Í hrossakaupunum kaupir Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) einkavæðingu Ríkisútvarpsins og kyngir því að því er virðist. (Forseti hringir.) Það er þetta sem er á ferðinni, frú forseti, en ekki reglulegt og sómasamlegt þinghald.