Viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir

Fimmtudaginn 01. júní 2006, kl. 10:42:48 (8472)


132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

viðbrögð í kjölfar upplýsinga um símhleranir.

[10:42]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þær hleranir sem upplýstar hafa verið í rannsóknum Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings eru grafalvarlegt mál og ekki síst í ljósi þess að þar er að því vikið að hugsanlega hafi þinghelgi verið rofin. Það sem er hins vegar merkilegra, hæstv. forseti, er að ríkisstjórnin hefur brugðist mjög hratt og örugglega við og tillaga forsætisráðherra til þingsályktunar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál er auðvitað fyrsta skrefið í þessu máli.

Ég vek athygli á því að í þessari tillögu er gert ráð fyrir að gögn verði rannsökuð allt til ársins 1991. Rannsóknir Guðna Th. Jóhannessonar náðu til ársins 1976 þannig að það getur verið að eitthvað frekara komi í ljós frá 1976–1991 þó að ekkert hafi komið fram um hleranir á 8. áratugnum í rannsóknum Guðna.

Ég tel hins vegar mikilvægt að í stað þess að við eyðum tíma í að ræða um störf þingsins verði þessi þingsályktunartillaga sett á dagskrá sem fyrst og fái þinglega meðferð. Ef hún er of takmörkuð, eins og fram kom í máli hv. þingmanna áðan, getur Alþingi gert breytingu á henni í meðferð sinni. Alþingi kemur beint að málinu og það eru hv. alþingismenn sem eiga endanlegt vald um það hvernig þingsályktun þingsins hljóðar.