Umferðarlög

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 22:15:39 (8671)


132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

umferðarlög.

503. mál
[22:15]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Hér er til 2. umr. frumvarp til laga um breytingar á umferðarlögum. Hv. þm. Kristján Möller hefur gert grein fyrir minnihlutaáliti sem ég styð. Þar er farið yfir þær meginathugasemdir sem við gerum við frumvarpið. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um það en vil þó ítreka það sem hér hefur komið fram, þ.e. athugasemdir við 9. gr. frumvarpsins, þar sem verið er að færa lögregluheimildir til eftirlitsmanna Vegagerðarinnar. En samkvæmt frumvarpinu er eftirlitsmönnum Vegagerðar heimilt að stöðva akstur farmflutninga- og hópbifreiða hvenær sem er til að sinna skilgreindu eftirliti með þeim.

Nú er það svo að það að stöðva flutningabifreið og rannsaka hana er lögregluaðgerð. Samkvæmt lögum hafa lögreglumenn einungis heimild til þess. Eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar er þarna með mjög alvarlegum hætti stillt upp við vegg. Verið er að gefa þeim heimild til að stöðva bifreið og spyrja hvort þeir megi skoða þetta eða hitt. Ef viðkomandi segir nei geta þeir ekkert gert. Þá verða þeir að kalla til lögreglu ef rannsaka á bifreiðina.

Sé eitthvað athugavert og jafnvel sakhæft eða refsivert á samkvæmt lögreglulögum að taka skýrslu á vettvangi þar sem meint brot eða hugsanleg brot gætu hafa verið framin. Vegaeftirlitsmennirnir hafa enga heimild til að taka skýrslu og mega það í rauninni ekki. Þá getur sá sem um er að ræða, og grunaður er um að hafa brotið af sér, ekki heldur varið sig. Hann getur ekki heldur gert athugasemdir við skýrslu sem ekki er hægt að taka. Skýrslugerð, ef um meint saknæmt athæfi er að ræða, verður að fara fram á næstu lögreglustöð. Það getur verið mörgum dögum seinna þess vegna. Vegaeftirlitsmennirnir hafa enga heimild til að skila einhverri skriflegri greinargerð í sjálfu sér um það. Þeir eru ekki marktækir hvað það varðar. Þá verða þeir að kalla viðkomandi inn til skýrslutöku hjá lögreglunni.

Þannig að þessi aðgerð öll er röng. Hún stríðir gegn lögum og rétti og réttarvitund fólks. Hún skerðir réttarfarslega möguleika þeirra sem hlut eiga að máli og á það hefur verið bent. Mig minnir að það hafi verið í fyrra, eða hvort það var í hittifyrra, að hluti af þeim breytingum sem hér er verið að innleiða enn frekar var leiddur í lög. Þar var verið að heimila vegaeftirlitsmönnum ákveðna þætti í þessu. Þá flutti ég um það breytingartillögu og lagðist alfarið gegn því að verið væri að færa vegaeftirlitsmönnum eitthvert lögregluvald sem þeir hafa alls ekki réttindi til.

Landssamband lögreglumanna hefur varað mjög alvarlega við þessu. Telur að þarna sé ekki aðeins um tvíverknað að ræða og óhagræði í öllu eftirliti heldur einnig um hæpinn lögformlegan gjörning að ræða og leggst alfarið gegn þessu og varar við þessu. Lögreglumenn eru jú með sérhæfða menntun til að fást við mál af þessu tagi, þ.e. að beita frelsissviptingu, og hafa líka til þess lögformlega stöðu. Vegaeftirlitsmenn hafa það ekki.

Þess vegna, frú forseti, gengur þetta frumvarp í berhögg við hagsmuni borgaranna hvað þetta varðar þar sem réttarstaða þeirra verður veikt, réttur þeirra til að reka mál sitt og standa fyrir máli sínu.

Okkur var einnig sýnt fram á að Vegagerðin er þegar farin að auglýsa eftir mönnum í þetta verk og þá var okkur bent á af hálfu lögreglumannanna hversu litlar hæfniskröfur eru gerðar til umferðareftirlitsmanna. Samkvæmt auglýsingu sem birtist sunnudaginn 11. desember 2005 — þá var auglýst eftir mönnum til að taka að sér svona verkefni, þetta er að hluta til þegar komið til framkvæmda — eru aðeins gerðar kröfur um stúdentspróf eða sambærilega menntun, tölvu- og málakunnáttu, frumkvæði og hæfni til að vinna sjálfstætt og góða samstarfshæfileika. Gott og vel með þessi atriði. En engin krafa er gerð um lögreglumenntun eða menntun á sviði löggæslu eða hvernig með skuli fara þegar verið er að beita frelsissviptingu eða slíku.

Ég vil einnig nefna annað atriði sem bent hefur verið á. Þau lög sem hér er verið að setja um eftirlitið eru mjög sniðin að stórum fyrirtækjum, að það séu fyrirtæki sem reki þessa bíla en ekki einyrkjar. Það lýtur t.d. að einhverjum EES-reglum sem þarf að innleiða hér varðandi aksturstíma og sitthvað fleira. Ég ætla ekki að gera lítið úr öryggisþáttum en ég minni á umsögn Landssambands vörubifreiðastjóra þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þessar EES-reglur eru líka hugsaðar með akstur milli landa í huga og passa alls ekki við akstur innanlands. Þessar reglur gera til dæmis einyrkjum ókleift að vera með rekstur samkvæmt j-lið.“ — Þ.e. þeirrar greinar þar sem verið er að taka á aksturstíma viðkomandi bifreiðar. — „Mjög margar hópbifreiðar og vörubifreiðar eru reknar hér á landi af einyrkjum, slíkt rekstrarform er mjög sjaldgæft erlendis og því gera þessar reglur ekki ráð fyrir slíkum rekstri. Því spyrjum við: Ætlar Alþingi að gera einyrkjum ókleift að vera með slíkan rekstur í landinu?“

Ég tek undir aðvaranir og ábendingar Landssambands vörubifreiðastjóra. Þessar reglur eru fyrst og fremst sniðnar að stórum fyrirtækjum þar sem margir menn keyra sama bíl o.s.frv. Við höfum státað af því hér á landi að standa vörð um einstaklingsrekstur, um einyrkjarekstur. Hann er mikilvægur í okkar atvinnulífi. En EES-reglurnar, sem stöðugt er verið að innleiða hér, miða að því að lama einstaklingsreksturinn eins og Landssamband vörubifreiðastjóra bendir líka á.

Mér finnst ansi hart að verða hér að deila á Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur fram að þessu staðið fyrir hinum klassísku gildum einstaklingsins og möguleikum hans til rekstrar, fyrir að vera stöðugt að innleiða regluverk sem skerðir möguleika einstaklingsrekstursins, færa allt meira og meira inn í hóprekstur eða stórfyrirtækjarekstur. Öðruvísi mér áður brá.

En það er svo í þessu sem og mörgu öðru að Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur vörð um einstaklingsframtakið og mun gera áfram þó að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að svíkja þann málstað sinn. Hann svíkur hann æ ofan í æ og ber fyrir borð hagsmuni einstaklinga í rekstri.

Ég held það sé mjög mikilvægt að taka þetta fram hér vegna þess að þessi gegndarlausi undirlægjuháttur við það sem menn kalla EES-reglur, og sjálfstæðismenn taka þátt í að innleiða, bitnar æ ofan í æ á rétti einstaklingsins til að stunda atvinnurekstur. Einyrkjareksturinn hefur borið íslenskt samfélag uppi lengst af og mun gera það áfram ef hann fær svigrúm til. Ég harma því þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að leggjast á einyrkjana eins og gert er í þessu lagafrumvarpi, samanber ábendingar Landssambands vörubifreiðastjóra.

Frú forseti. Ég get að öðru leyti einungis vísað til ágætrar greinargerðar hv. þm. Kristjáns Möllers varðandi það hvernig verið er að færa vegaeftirlitsmönnum lögregluvald, sem er rangt. Ég tek líka undir þau orð hv. þm. Kristjáns Möllers, sem koma fram í nefndarálitinu, að verið sé að færa aukinn kostnað af eftirliti með þessari starfsemi yfir á fyrirtækin og sá kostnaður leggst hvað þyngst á einstaklingsreksturinn, á einyrkjareksturinn. Hinir sem eru með stórfyrirtækin í þessum vöruflutningarekstri eða akstri á fólksflutningabílum koma miklu betur út. Þyngst leggst þessi kostnaður á einstaklings- og einyrkjareksturinn. Þeirri stefnu er ég líka andvígur, frú forseti.

Ég læt þetta gott heita. Ég get ekki stutt þær greinar sem lúta að þeim þremur atriðum sem ég hef nefnt.