132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[02:04]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð nú að valda hv. þingmanni vonbrigðum með því að segja að ég leyfi mér að halda því fram að Íslendingar hafi gert allt annað en að ganga á undan með góðu fordæmi. Íslendingar hafa verið að nýta vatnsorku sína og eru núna með í byggingu eitthvert ömurlegasta vatnsorkuver sem um getur í Evrópu sem eyðir dýrmætum náttúruperlum og hvetur til atvinnuuppbyggingar sem er ekki í þeim dúr sem samfélögin sem við þeim eiga að taka hefðu þurft á að halda.

Við höfum oft tekið þessa snerru og það er erfitt að ætla sér í stuttu andsvari að súmmera hér eitthvað upp í þeim efnum. En hv. þingmaður verður að sætta sig við að virkjanir á borð við þær sem Kárahnjúkavirkjun sver sig í ætt við eru ekki taldar framleiða endurnýjanlega orku vegna þess að þær valda óafturkræfum umhverfisspjöllum. Það eru einungis virkjanir sem taldar eru ásættanlegar út frá umhverfissjónarmiðum sem heimilt er í raun að telja til þeirra virkjana sem teljast umhverfisvænar eða hægt að státa sig af að séu á einhvern hátt endurnýjanlegar.

En þetta er auðvitað umræða sem við tökum ekki dýpra hér að sinni. Mér finnst að Íslendingar gætu gert svo miklu meira í þessum efnum til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni og hefðu svo oft haft tækifæri á síðustu árum til að ganga á undan með góðu fordæmi. En það gerðum við ekki. Við fórum á hnjánum til Kyoto, börðumst um á hæl og hnakka til að fá undanþágurnar. Til hvers? Til þess að láta erlendri stóriðju í té endurgjaldslaust.