Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 12:26:07 (8783)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:26]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að segja örfá orð um þessa afgreiðslu á byggðaáætlun. Það væri að sjálfsögðu hægt að ræða byggðamál lengi dags og full þörf á en það verður að bíða betra tækifæris.

Ég vil í fyrsta lagi útskýra fyrirvara minn við stuðning minn við áætlunina eins og fram kemur í nefndaráliti iðnaðarnefndar. Hann lýtur að því, eins og þar kemur fram samkvæmt orðanna hljóðan, að við teljum mikilvægt að tryggja að Byggðastofnun verði í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem henni eru ætluð, m.a. í þessari áætlun og í breytingartillögum iðnaðarnefndar við hana og að stjórnsýslu byggðamála verði að öðru leyti fullnægjandi fyrir komið á komandi árum. Þetta vísar að sjálfsögðu að verulegu leyti til stöðu áætlunarinnar gagnvart frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra um Nýsköpunarmiðstöð. Nú horfir að vísu svo gleðilega á þinginu að það verði ekki afgreitt og ríkisstjórnin sé fallin frá því að reyna að troða því í gegnum þingið á þessu vori og vonandi lítur það aldrei aftur dagsins ljós á borðum þingmanna, jafnhrottalega vitlaust og illa unnið og það frumvarp er.

Byggðastofnun er auðvitað það stjórnsýslu- og framkvæmdatæki sem stjórnvöld hafa fyrst og fremst í höndum í dag til að beita til aðgerða í byggðamálum sem og þeim verkefnum öðrum sem Byggðastofnun hefur við að undirbúa áætlanir og móta stefnu. Þess vegna er meira og minna markleysa að afgreiða byggðaáætlun með fallegum markmiðum í byggðamálum ef stjórnvöld ætla á sama tíma að leggja niður helstu úrræði sín til að gera eitthvað. En það mundi auðvitað gerast ef menn færu þá leið sem frumvarpið um Nýsköpunarmiðstöð felur í sér.

Um þessa áætlun má að öðru leyti segja, eins og þegar hefur verið gert að hluta til, að hún er góðra gjalda verð, eins og þær hafa yfirleitt verið þessar byggðaáætlanir. Hið sama gildir um þær breytingartillögur sem hér eru fluttar um að skerpa á ákveðnum atriðum. En allt kemur það fyrir lítið ef framkvæmdin er í skötulíki og hin ráðandi pólitísku öfl eru ekki tilbúin til að leggja það af mörkum til þessa málaflokks að eitthvað jákvætt gerist. Þá kemur aftur að þessu með úrræði stjórnvalda í byggðamálum til að reyna að hafa áhrif á og tryggja sæmilegt jafnvægi í þróun byggðar í landinu. Það er ekki eitthvert fyrirbæri, eitthvert hugtak, einhver hugsun sem menn eru að finna upp í dag.

Það er þekkt frá flestum nálægum löndum þar sem aðstæður eru að einhverju leyti sambærilegar, að stjórnvöld reki beinlínis stefnu til að reyna að stuðla að slíku jafnvægi. Af hverju skyldi það nú vera? Það er m.a. vegna þess að menn hafa áttað sig á því að það er óheyrilega dýrt ef mikil röskun verður á búsetu í einu landi, hvort sem það er af efnahagslegum ástæðum eða vegna verri hluta eins og náttúruhamfara, styrjalda eða annars af því tagi. Það er mjög dýrt, tilfinnanlegt og neikvætt í menningarlegu tilliti, félagslegu tilliti o.s.frv. Þar af leiðandi er niðurstaðan yfirleitt sú að stjórnvöld, þ.e. ríkisvald, fylki eða héruð og sveitarfélög, beita aðgerðum af þessu tagi. Ísland getur ekki skorið sig þar úr leik nema við ætlum að sætta okkur við byggðaröskuna og taka á okkur það sem henni fylgir.

Ísland hefur reyndar upplifað meiri búferlaflutninga og meiri breytingu á búsetu en flestar aðrar ef ekki allar Evrópuþjóðir nema þá þær sem hafa orðið fyrir hremmingum stórstyrjalda. Byggðaröskunin sem þykir nú næg annars staðar á Norðurlöndunum er þó aðeins brot af því sem hún hefur verið hér. Hinir miklu flutningar þar sem gjarnan er talað um frá norðri til suðurs, frá norðlægari héruðum skandinavísku landanna og suður til höfuðborgarsvæðanna, eru þó kannski af stærðargráðunni 1/3 af því sem flutningarnir hafa verið hér á landi. Hvernig stendur þá á því að mönnum dettur samt í hug í íslenskum stjórnmálum að leggja meira og minna niður og afsala stjórnvöldum helstu tækjum til að hafa áhrif á þessa þróun? Það hefur verið að gerast á Íslandi á undanförnum árum. Það er meira en tímabært að taka málefni þessa málaflokks í heild sinni til skoðunar og endurskipulagningar og ég vil næstum segja endurreisnar. Ekki á að þurfa að vera um það nein pólitísk deila, ekki á að þurfa að vera um það neinn ágreiningur milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, milli hægri og vinstri, af því að ef menn setjast yfir málið munu allir komast að sömu niðurstöðu, að það er þjóðhagslega geysilega óhagkvæmt að mikil röskun sé af þessu tagi. Ergó, það er góð fjárfesting að leggja fjármuni í að snúa því við og koma aftur á jafnvægi í byggðaþróun í landinu.

Ég held að liður í því verði að vera algjör endurskipulagning á stjórnskipulegu fyrirkomulagi mála og þeim tækjum og úrræðum sem stjórnvöld hafa í sínum höndum til að láta hlutina gerast, þar með talið að stokka upp atvinnuþróunar- og nýsköpunaraðgerðir stjórnvalda. Veruleikinn er sá, frú forseti, að þessi málaflokkur er meira og minna búinn að vera í upplausn síðustu fimm, sex ár. Það er bara veruleikinn. Það gerðist með flutningi málaflokksins úr forsætisráðuneyti yfir í iðnaðarráðuneyti, sem voru mistök. Það gerðist með breytingu á stjórnsýslu málaflokksins, þ.e. að lögð var niður þingkjörin stjórn Byggðastofnunar, sem tryggði aðkomu allra flokka og í staðinn kom hið venjulega ráðherravald sem núverandi ríkisstjórn hefur einkar mikið dálæti á, að handvelja menn samkvæmt geðþótta ráðherrans í svona stjórnir. Þetta gerðist með flutningi Byggðastofnunar norður á Sauðárkrók sem auðvitað hafði truflandi áhrif á meðan á því stóð. Þetta gerðist með miklum hremmingum sem stofnunin lenti í vegna illdeilna þannig að hún varð meira og minna lömuð um skeið af þeim ástæðum. Og þetta gerðist síðast en ekki síst með því að Byggðastofnun sem slík hefur verið máttlaus og nánast óstarfhæf vegna fjárskorts og svo var komið síðastliðið haust að Byggðastofnun var ekki lengur í aðstöðu til að veita lán, þ.e. að hún uppfyllti ekki skilyrði laganna um fjármálastofnanir til þess að veita lán og varð að loka. Það gerðist að vísu sá fáheyrði atburður að ráðherrann rak stofnunina til að hafa lögin að engu og lána samt, en eiginfjármörk Byggðastofnunar voru komin niður fyrir þessa viðmiðun.

Þetta er veruleikinn. Atvinnuþróunarfélögin héngu í lausu lofti í tvö, þrjú ár án samninga við ríkisvaldið um fjárveitingar og þannig mætti áfram telja. Það er auðvitað dapurlegt að svona skuli þetta hafa gengið til undanfarin fjögur til sex ár en það er veruleikinn. Þessu verður að linna. Það verður að koma málefnum Byggðastofnunar eða þeirrar stofnunar og þess framkvæmdatækis sem stjórnvöld hafa með höndum í lag og stjórnsýsla og skipulagning öll í málaflokknum verður að vera það sömuleiðis.

Ég held, án þess að ég ætli tímans vegna að fara út í það, að vænlegast sé að vinda ofan af vitleysunum sem ríkisstjórnin hefur gert í sambandi við flutning málaflokksins frá forsætisráðuneyti til iðnaðarráðuneytis og þar fram eftir götunum. Þessir hlutir voru á sínum tíma í mun betra horfi en þeir eru í núna. Það er algjörlega óásættanlegt að það sé borið á borð fyrir okkur að við getum reiknað með því að hafa einhver áhrif á þróunina á þessu sviði til góðs hér á landi ef ekki má beita sambærilegum og jafnumfangsmiklum úrræðum í því skyni og gert er í nágrannalöndunum. Öll rök hníga í raun og veru til þess að hér þyrfti að gera meira, samanber þróunina eins og hún hefur verið og samanber það hversu grisjótt byggðin er orðin á stórum svæðum og veik vegna langvinnrar búseturöskunar undanfarna áratugi.

Í nágrannalöndunum eru menn með beinan stuðning, þar eru menn með greiðslur til að endurgreiða flutningskostnað. Menn endurgreiða rannsóknarkostnað, menn veita jafnvel stofnstyrki. Regluverk Evrópusambandsins heimilar þetta allt saman. Norðmenn hafa t.d. farið þá leið að láta Evrópusambandið gera úttekt á byggðastuðningskerfi sínu og það stenst allar reglur sambandsins. En þar eru menn líka með þessar aðgerðir í gangi, þar gera menn þetta. Hér hefur meira og minna staðið til að leggja þetta allt saman niður og slá það af. Það mun að sjálfsögðu aðeins hafa áhrif á einn veg, þ.e. þann að auka enn jafnvægisleysið í þessum efnum í landinu með tilheyrandi miklum kostnaði og tjóni fyrir þjóðarbúið og auðvitað sárindum og erfiðleikum sérstaklega fyrir þá sem í hlut eiga, þá einstaklinga og þau samfélög sem eiga undir högg að sækja í þessum efnum.

Þessi áætlun er góðra gjalda verð og mörg eru orðin falleg sem þarna eru sett á blað en allt mun þó ráðast af framkvæmdinni, hvernig til tekst og hvaða gagn það gerir að setja niður slíka fallega viljayfirlýsingu um jákvæða hluti í sambandi við byggðamál. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið sig hörmulega illa í þessum efnum, það er til meiri háttar skammar hvernig þessi málaflokkur hefur meira og minna verið afvelta. Hæstv. samgönguráðherra er þar ekki undanskilinn þó að hann beri sig vel hér í hliðargætt.