Almennar stjórnmálaumræður

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 14:07:31 (8793)


132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:07]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Það hefur verið merkilegt að hlusta á þær dómadagsræður sem þingmennirnir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Steingrímur J. Sigfússon hafa flutt landsmönnum hér við upphaf eldhúsdags. Það mætti halda að allt væri á öðrum endanum í samfélaginu. Af málflutningi þeirra má dæma að ríkisstjórnin hafi einfaldlega ekki staðið sig þegar að efnahagsmálunum kemur.

Staðreyndin er sú að staða efnahagsmála hér á landi er sterk. Skuldir ríkissjóðs eru nær engar og sýnir fram á styrka efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar sem hefur styrk og þor til þess að takast á við erfið málefni. Og árangurinn er eftir því. Nær hvergi í Evrópu hefur kaupmáttur heimilanna aukist eins og hér á landi, kaupmáttaraukning upp á 50–60%. Það er þannig að velmegun er almenn hér á landi. Þó má alltaf bæta hag ákveðinna þjóðfélagshópa. Þar má kannski sérstaklega nefna eldri borgara og að því er markvisst unnið.

Hæstv. forseti. Mikil umræða hefur farið fram um það hversu erfitt það er fyrir ungt fólk að eignast eigið heimili og ég er sammála því. Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á að bæta hag barnafólks fyrir síðustu alþingiskosningar. Við lofuðum stórhækkuðum barnabótum. Barnabætur munu á næsta ári hafa hækkað um 2,4 milljarða, hafa þá hækkað um 50% á kjörtímabilinu. Þessir fjármunir munu renna sérstaklega til lágtekju- og millitekjufólks. Síðan heldur stjórnarandstaðan því fram að ekki sé verið að bæta sérstaklega hag lágtekjufólksins í þeim skattbreytingum sem nú eru framkvæmdar.

Við framsóknarmenn lofuðum einnig að minnka jaðaráhrifin í skattkerfinu og við höfum staðið við það. Í þessu samhengi skulum við ræða um unga fólkið sem nú á í erfiðleikum með að eignast eigið húsnæði. Þetta fólk þarf að vinna mikið og hefur því oftar en ekki ágætislaun, en því er þá refsað, engar vaxtabætur, engar barnabætur. Og hvernig eigum við að bæta hag þessa fólks öðruvísi en að lækka tekjuskatt heimilanna í landinu? Við lofuðum því fyrir síðustu kosningar að gera það og við höfum staðið við það. Við erum nú á þessu kjörtímabili að lækka tekjuskattinn um 4%. Og stjórnarandstaðan má eiga það að hún er sameinuð á móti þessum skattalækkunum, talar um skattalækkun fyrir ríka fólkið. Nei, þetta er fyrst og fremst skattalækkun fyrir venjulegt fólk, venjulegt vinnandi fólk og stjórnarandstaðan vill koma í veg fyrir að skattar verði lækkaðir með þessum hætti á þetta fólk, að eitt stærsta hagsmunamál heimilanna verði að veruleika. Stjórnarandstaðan má eiga það, hún stendur sameinuð að því að koma í veg fyrir að það verði að veruleika. Ja, ekki er það björgulegt, hæstv. forseti.

Reyndar er það nú svo, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan er út og suður þegar kemur að skattamálum. Enginn trúverðugleiki þar á ferðinni, því miður. Ræðir um það í einu orðinu að hlúa að og efla atvinnulífið í landinu, leggur svo til síðasta haust að hækka tryggingagjaldið og auka þannig álögur á atvinnulífið.

Eins er það með unga fólkið sem nú er að berjast í því að koma sér þaki yfir höfuðið. Það fólk á engan vin í stjórnarandstöðunni hér á Alþingi. — Góðar stundir.