132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands.

708. mál
[16:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta frumvarp er afar slæmt svo ekki sé dýpra í árinni tekið og það er sorglegt að það skuli nú vera gert að lögum. Ég hef trú á því að það séu ekki aðeins stéttarfélögin sem gagnrýna þetta frumvarp harkalega, gagnrýnin kemur víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Stéttarfélögin gagnrýna margt, þau gagnrýna þá kjaraskerðingu sem starfsfólki er búin með þessari lagasetningu en þau hafa einnig bent á og vísað í reynslu erlendra þjóða þar sem fram hafa komið víti til að varast. Þau hafa látið Alþingi í té hverja skýrsluna á fætur annarri sem sýnir fram á hve varasamt sé að fara þessa braut.

Þau hafa bent á að hæstv. samgönguráðherra skipaði á sínum tíma nefnd til þess að fjalla um möguleika um fyrirkomulag á þessu sviði. Sú nefnd setti fram fjóra valkosti. Einn þeirra valkosta var hlutafélagavæðing flugrekstrarins og það var að sjálfsögðu sá valkostur sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins, einkavæðingarflokksins, valdi og skipaði nefndinni síðan að keyra það mál áfram.

Á sínum tíma spurði hv. formaður samgöngunefndar, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, hæstv. utanríkisráðherra, Geir H. Haarde, hvort ekki væri ráð að gera heildstæða löggjöf um flugmálastjórnina í landinu. Ég man ekki betur en hæstv. ráðherra tæki því vel. Hann kom hér með lagafrumvarp ekki alls fyrir löngu um opinberan rekstur varðandi Keflavíkurflugvöll. Framsóknarflokkurinn lagðist gegn þeirri hugmynd sem hæstv. ráðherra nefndi, að ráð væri að einkavæða eða hlutafélagavæða þann rekstur, Framsóknarflokkurinn var á móti því. En nú er Framsóknarflokkurinn sammála því að hlutafélagavæða reksturinn á Sauðárkróki og á Akureyri og á Höfn í Hornafirði, það er allt í góðu lagi.

Hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hefur nefnilega lýst þessu ágætlega, að sumir stjórnmálamenn og sumir stjórnmálaflokkar séu nýtilegir því að það sé hægt að nota þá. Og það er Framsóknarflokkurinn. Það er bara alltaf vandinn við slíka flokka, sem eru hentistefnuflokkar sem eru notaðir, hvorum megin hryggjar þeir lenda. Nú eru þeir einkavæðingarmegin og greiða atkvæði með því að hlutafélagavæða flugvellina á landsbyggðinni á Íslandi. Það er dapurlegt hlutskipti.