Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Miðvikudaginn 05. október 2005, kl. 14:36:18 (46)


132. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[14:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má þá skilja málið þannig að í reynd sé um eins konar ígildi þingsályktunartillögu að ræða, þ.e. yfirlýsing um hver sé vilji Alþingis. En þá hefði kannski verið eðlilegra að hafa þetta í formi þingsályktunartillögu.

Það skiptir vissulega máli að þetta er lagt fram sem lagafrumvarp. Það má vel vera að eftir næstu kosningar komi önnur ríkisstjórn sem hafi aðrar áherslur, aðra forgangsröð og vilji jafnvel nýta fjármagnið að einhverju leyti til að bæta kjör aldraðra, fatlaðra og annarra slíkra hópa sem við viljum leggja lið. Mér finnst skipta miklu máli að strax í upphafi umræðunnar séu hv. þingmenn með það á hreinu hvort um er að ræða lagafrumvarp, þingsályktunartillögu eða ígildi langtímafjárlaga. Mér finnst það skipta máli. Ég held að það sé mikilvægt að þessir hlutir liggi skýrt fyrir í umræðunni, líka upp á framtíðina að gera.