Fjárlög 2006

Fimmtudaginn 06. október 2005, kl. 11:22:51 (105)


132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:22]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé nú enga sérstaka ástæðu til þess að kaupa slíka könnun. Ég fagna hins vegar þeirri umræðu sem er um þjóðhagsspárnar og fagna því að greiningardeildir bankanna skuli taka þátt í þeirri umræðu. Ég kveinka mér ekkert undan því þótt umræðan sé gagnrýnin, ég held að það sé af hinu góða að við höfum uppi faglega og efnismikla umræðu um efnahagsmálin og ríkisbúskapinn. Við verðum síðan bara að sjá hvaða spár standast og hverjar ekki og á hvaða forsendum þær gera það. Ég held að reynslan styrki mjög vel málstað ríkisstjórnarinnar.

Ríkisstjórnin hefur náð mjög góðum árangri í ríkisfjármálunum og það hefur hún auðvitað byggt á þeim spám sem starfsmenn ráðuneytisins hafa gert og hún hefur byggt aðgerðir sínar á þeim spám. Það hefur allt gengið mjög vel eftir og staða ríkissjóðs er sterkari nú en hún hefur sennilega verið nokkru sinni. Ég held því að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa mjög miklar áhyggjur á þessu stigi málsins.