Fjárlög 2006

Fimmtudaginn 06. október 2005, kl. 12:16:05 (116)


132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[12:16]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta lykilatriði, grundvöllur frumvarpsins sjálfs, spáin um þörfina fyrir aðhald á næsta ári er áhyggjuefni í því frumvarpi sem hér er. Það er líka áhyggjuefni ef hv. formaður fjárlaganefndar hefur bara ákveðið að trúa spá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og hafa ekki um hana neinar efasemdir. Við höfum niðurstöðuna af spá sömu skrifstofu fyrir árið í ár og hún var víðs fjarri veruleikanum.

Staðreyndin er sú að spá Seðlabankans um þörf fyrir aðhald á næsta ári segir allt annað. Seðlabankinn segir að hér sé þörf fyrir umtalsvert meira aðhald en á árunum 1999 og 2000. Því er hætt við að í frumvarpinu sé hættulegt vanmat á ferðinni. Álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins styður það einnig en í júní á þessu ári hvatti hann ríkisstjórn Íslands til þess að fresta fyrirhuguðum skattalækkunum á næsta ári. Það er alveg ljóst að eini aðilinn sem telur að ekki sé þörf fyrir mikið aðhald er efnahagsskrifstofa fjármálaráðherrans. Það er áhyggjuefni þegar Alþingi á að leggja sjálfstætt mat á tillögur fjármálaráðuneytisins að formaður fjárlaganefndar hafi ákveðið að trúa fjármálaráðuneytinu en skella skollaeyrum við spám og viðvörunum fjármálalífsins, atvinnulífsins, launþegasamtakanna, Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Fyrir þeirri afstöðu sinni verður hann að færa einhverjar röksemdir og ég spyr hv. formann fjárlaganefndar hvort hann getur bent mér á eina stofnun í íslensku samfélagi, sérfræðistofnun sem hafi í þessari viku lýst því yfir að aðhald í íslenskum fjárlögum sé nóg.