Kjör aldraðra

Þriðjudaginn 11. október 2005, kl. 14:15:04 (345)


132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:15]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegi forseti. Miðað við umræðuna sem fram fer í dag, greinaskrif í dagblöðum og samþykktir á landsfundum, nú síðast ályktun frá Félagi eldri borgara í Kópavogi, ætti okkur öllum að vera ljóst að stór hópur aldraðra hefur tekjur undir fátæktarmörkum. Aldraðir hafa dregist aftur úr frá því að klippt var á tengsl launa og lífeyris fyrir um 10 árum.

Við skulum fara aðeins yfir tölurnar og skoða raunveruleg kjör aldraðra. Tökum sem dæmi einhleypan ellilífeyrisþega sem ekki hefur atvinnutekjur. Hann fær í grunnlífeyri rúmar 21 þús. kr., rúmar 43 þús. kr. í tekjutryggingu, í tekjutryggingarauka rúmar 21 þús. kr. og heimilisuppbót upp á 18 þús. Samtals eru þetta 104 þús. kr. Síðan kemur tekjuskattur ofan á öll þessi ósköp þannig að ráðstöfunartekjurnar eru rúmar 93 þús. kr.

Ef ellilífeyrisþeganum bjóðast atvinnutekjur, t.d. 50 þús. kr. fyrir að leika í auglýsingu um áhyggjulaust ævikvöld, þá lækkar tekjutryggingin og heimilisuppbótin og tekjutryggingaraukinn fellur niður. Af þessum 50 þús. kr. atvinnutekjum fengjust rúmar 17 þús. kr., þ.e. atvinnutekjurnar skerðast um 65%.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að hækka tekjutryggingaraukann með því að taka kjarabætur af fötluðum. Það á að fella niður bensínstyrk sem er til þess fallinn að aðstoða fatlaða við að bjarga sér sjálfir. Er það virkilega eina lausnin sem ríkisstjórnin hefur til að bjarga tekjuskorti aldraðra, að egna þessum tveimur hópum saman? Fyrr skal ég dauður liggja.