Kjör aldraðra

Þriðjudaginn 11. október 2005, kl. 14:21:42 (348)


132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Kjör aldraðra.

[14:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að menn eiga að vera nákvæmir í orðavali. Það sem gerðist um miðjan síðasta áratug var að tryggingabætur voru slitnar úr tengslum við lægstu verkamannataxta, sem þá voru. Þær kerfisbreytingar urðu til að stórrýra kjör eldri borgara. Nú situr vinnuhópur og skoðar þessi mál. Upp hefur risið ágreiningur á milli ríkisstjórnarinnar annars vegar og Landssambands eldri borgara hins vegar. Menn rýna í þennan ágreining en áður en niðurstaða liggur fyrir kemur fulltrúi ríkisstjórnarinnar, hæstv. ráðherra, í ræðustól og segir: Jafnvel þótt Landssamband eldri borgara hafi rétt fyrir sér þá verður það að engu haft. Þetta er undarlegt framlag inn í samningaviðræður sem nú fara fram.

Ég ætla ekki að nota stór orð eða munnhöggvast við ríkisstjórnina en ég hvet þjóðina til að fylgjast með þeim samningaviðræðum sem nú fara í hönd á milli stjórnvalda annars vegar og Landssambands eldri borgara hins vegar.

Það er rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að tryggingabætur eiga lögum samkvæmt að fylgja verðlagi að lágmarki. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, eins og það liggur fyrir, mun það ekki gerast. Að óbreyttu frumvarpinu verða brotin lög á eldri borgurum.

Vert er að minnast á framlag hæstv. fjármálaráðherra, sem kemur og talar um trúverðugleika. Fyrir liggur stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, ekki bara í kjaramálum aldraðra heldur einnig varðandi byggingu hjúkrunarheimila. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir má vita að sú yfirlýsing var birt rétt fyrir kosningarnar 2003, í marsmánuði í flóðlýsingu í Þjóðmenningarhúsinu. Ég held að menn eigi að spara sér flóðljósin á þeim bæ.