Málefni aldraðra

Þriðjudaginn 11. október 2005, kl. 18:01:34 (409)


132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[18:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég gat um var ekki meiningin að auka réttlætið. Hins vegar er það viðurkennt af flestum að einfalt skattkerfi og einfalt bótakerfi sem allir skilja og vita hvenær þeir eiga rétt og hvenær þeir eiga ekki rétt og hvað þeir eiga að greiða í skatta og hvað þeir eigi ekki að greiða í skatta, er réttlátara en það kerfi sem enginn botnar neitt í og þarf dýra endurskoðendur til að telja fram fyrir sig. Þannig var það fyrir nokkrum árum en nú er skattkerfið orðið tiltölulega einfaldara, þannig að menn geta margir hverjir talið fram sjálfir. Hins vegar eru margir sem ekki treysta sér til þess og fá endurskoðanda og borga honum mikla peninga fyrir. Það tel ég ekki vera réttlátt, frú forseti, ef það er óþarfi.

Sú hugmynd sem ég var með felst í því að menn borga nákvæmlega það sama og áður nema kerfið er einfaldara. Það þarf ekki að kenna eins mikið vestur í háskóla í skattalögfræði og fólkið skilur hvað það er að greiða. Núna kemur gjald hjá öllum Íslendingum, eitthvert gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og ég geri ráð fyrir að svona 70–80% af fólki klóri sér í hausnum og segi: Hvað er þetta nú eiginlega? Hvað gjald er þetta og af hverju er ég að borga það? Og ef skyldi nú vera vitlaust lagt á þá er fólk ekki í nokkurri aðstöðu til að tékka það af hvort það sé rétt eða rangt. Það felst í flækjunni. Þeir sem t.d. fjalla um endurgreiðslu á virðisaukaskatti á byggingarstað vita að fjöldi manns sækir ekki um hana af því að það er svo flókið. Flækja í kerfum er alltaf ófélagsleg. Þeir sem hafa nóga peninga til að borga dýra endurskoðendur geta notað flækjurnar alveg til hins ýtrasta sér í hag, en hinn fátækari, launþeginn, getur það ekki.