Húsnæðismál geðfatlaðra

Miðvikudaginn 12. október 2005, kl. 13:55:57 (429)


132. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2005.

Húsnæðismál geðfatlaðra.

145. mál
[13:55]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og lýsa ánægju minni með þá stefnubreytingu sem hefur orðið í málefnum geðfatlaðra á síðustu missirum. Hana má m.a. merkja í átaki sem gert verður í búsetumálum geðfatlaðra fyrir hluta af söluandvirði Símans. Fólki sem hefur dvalið langdvölum á stofnunum vegna fötlunar sinnar verði gert kleift að búa við eins eðlilegar aðstæður og kostur er utan stofnana á eigin heimili og eigin umhverfi í sambýli við aðra geðfatlaða.

Vandinn sem hv. þingmaður bendir hins vegar á í fyrirspurn sinni um skipta ábyrgð ráðuneyta í málefnum geðfatlaðra er hins vegar staðreynd. Málefni geðsjúkra falla undir heilbrigðisráðuneytið en málefni geðfatlaðra undir félagsmálaráðuneytið. En hér er um sömu einstaklingana að ræða sem þurfa að leita stuðnings vegna fötlunar sinnar. Þessi skipting er afar óheppileg og mörg dæmi eru um að hún hafi komið niður á þjónustu við þá. Við verðum að leita leiða til að skapa samfellu í þessum kerfum og best væri að fyrirhuguð breyting á starfsemi Stjórnarráðsins leiði til þess að málefni geðfatlaðra og geðsjúkra falli undir sama ráðuneyti.