Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 11:47:02 (497)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:47]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Upplýsingarnar sem ég var með hér um kaupmáttaraukningu almennt voru frá hæstv. forsætisráðherra. Upplýsingarnar sem ég var með um kaupmáttaraukningu aldraðra lífeyrisþega eru frá Landssamtökum eldri borgara. (Gripið fram í.)

Varðandi þær tölur sem hv. þm. Pétur Blöndal nefndi um þessa miklu aukningu hjá tilteknum hópi lífeyrisþega hefur það þegar komið fram í þingsalnum í dag að þarna er verið að tala um hækkun sem varð hjá þeim 300 einstaklingum sem eru með tekjutryggingarauka, 300–400 einstaklingum. Af 35 þús. öldruðum (Gripið fram í.) er það allur hópurinn sem er með tekjutryggingaraukann, hv. þingmaður, og það er aðeins lítill hluti aldraðra í landinu.