Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 12:31:37 (513)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:31]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu er ég sammála hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að þjóðfélag getur ekki kallað sig velferðarþjóðfélag ef einhver hópur af þeim sem minna mega sín, hvort sem það eru aldraðir, öryrkjar eða aðrir, á ekki fyrir nauðþurftum. Við getum ekki kallað slíkt velferðarþjóðfélag.

Skattgreiðendum hefur fjölgað og ein af meginforsendunum fyrir þeirri fjölgun er að persónuafslátturinn og þar af leiðandi skattleysismörkin hafa hvorki fylgt verðlagi né launum. Það er nöturleg staðreynd þegar maður veltir því fyrir sér og fer í gegnum að þeir tæplega 30 þúsund einstaklingar sem eru með tekjur á bilinu frá skattleysismörkum, sem eru 71.296 kr., og upp í 100 þús. kr. hafi á síðasta ári borgað 2 milljarða kr. í skatt til ríkisins. Ætli að það séu þeir einstaklingar sem hv. þm. Pétur Blöndal talaði um að hefðu svo háan lífeyri og svo háar bætur að þeir ættu að fagna því að borga skatt?

Hvað lífeyrissjóðina varðar get ég verið sammála hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að ég held að kannski sé ívið lengra í þá framtíð sem hann var að lýsa en margur heldur en það er partur af þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar að við viljum að aðilar fari saman í að semja um þessa afkomutryggingu fyrir aldraða og öryrkja, þá erum við að tala um ríkið, sveitarfélögin, aðila vinnumarkaðarins og þar með talið lífeyrissjóðina. Ef allir þessir aðilar setjast niður og koma að verkinu af fullum heilindum þá efast ég ekkert um að menn nái niðurstöðu sem bæði aldraðir og öryrkjar, og við hér getum verið fullsæmd af.