Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 13:43:48 (527)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Framtíðaruppbygging Háskólans á Akureyri.

[13:43]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Sú umræða sem hér fer fram hefur sýnt okkur og sannað hversu mikið gæfuspor það var þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður. Þarna er um gífurlega mikilvæga stofnun að ræða bæði fyrir menntakerfið almennt og ekki síst fyrir landsbyggðina. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að þeir nemendur sem hafa útskrifast frá Háskólanum á Akureyri hafa skilað sér miklum mun betur til starfa á landsbyggðinni en þeir sem hafa útskrifast úr öðrum háskólum landsins. Skólinn skiptir því mjög miklu máli fyrir landsbyggðina og þess vegna er auðvitað mikilvægt þegar fjármunum er skipt til háskóla að sérstakt tillit sé tekið til þess. Það er eðlilegt að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort ekki sé hugsanlegt við skóla eins og Háskólann á Akureyri að hann sé á einhvern hátt tengdur byggðamálum, þ.e. að ákveðið fjármagn sé eyrnamerkt því, vegna þess hve hlutur skólans er gífurlega mikill í byggðamálum.

Það er líka eðlilegt að spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort það hafi ekki verið mistök að rannsóknahúsið skyldi hafa verið byggt í einkaframkvæmd vegna þess, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, frummælanda, er húsaleigan í því húsi um þrisvar sinnum hærri en almennt gengur og gerist á þessu svæði. Það er ljóst að þetta kemur niður á starfsemi þeirra stofnana sem þarna eru. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á hefur að örlitlu leyti verið brugðist við því varðandi háskólann. En það er rétt að upplýsa að við vinnu í fjárlaganefnd hefur verið óskað sérstaklega eftir frá fjármálaráðuneytinu að nefndin fái yfirlit yfir leiguna sem þarna er greidd. Nefndin hefur því ákveðið að málið verði skoðað alveg sérstaklega og farið yfir hvernig það kemur út fyrir þær stofnanir sem þar eru inni, því það er ljóst að sá skaði sem hefur orðið við að stofnanir hafa þurft að greiða hærri leigu en þær gerðu í húsnæði sem þær voru í áður hefur ekki alls staðar verið bættur.