Úrvinnslugjald

Þriðjudaginn 18. október 2005, kl. 14:13:38 (633)


132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Úrvinnslugjald.

179. mál
[14:13]
Hlusta

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi og lýsi jafnframt yfir ánægju minni hve snemma það kemur inn í þingið, eins og hv. þm. Mörður Árnason gerði. Eins og komið hefur fram í umræðunni eru úrvinnslumál og úrvinnslugjöld einmitt eitt af því flóknara sem umhverfisnefnd Alþingis fjallar um. Sorphirða og gámavellir og þess háttar verður æ kostnaðarsamari þáttur í rekstri sveitarfélaga á Íslandi. Þetta eru í raun peningar sem sveitarfélögin sjá á vissan hátt mjög mikið eftir. Við sjáum ekkert eftir peningum sem við verjum til uppeldismála, menningarmála og þess háttar en við sjáum eftir þeim peningum sem við verjum í þennan málaflokk. Þess vegna á hann að vera sem sjálfbærastur, þ.e. þeir sem menga borgi þann kostnað sem til fellur. Þessi málaflokkur verður líka sífellt flóknari með tíð og tíma með þeirri þróun sem á sér stað í samfélaginu. Endurnýting og endurvinnsla eru lykilorð í framtíðarskipan þessara mála. Nýverið hefur verið kynnt svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Íslandi á árabilinu frá 2005–2020. Þá hafa fjögur sorpsamlög tekið sig saman og myndað ákveðna áætlun hvað þetta varðar og þar kemur í ljós hve mikil aukning verður á ýmiss konar úrgangi í framtíðinni.

Í frumvarpinu er að bætast við í málaflokkinn úrvinnslugjald sem tengist pappír, plasti og pappa. Við settum lög um úrvinnslugjald varðandi plast fyrir nokkrum árum sem er mjög flókið að framfylgja, t.d. hvað varðar landbúnaðarplast sem berst á sorpstöðvarnar. Menn eru til þess að gera óánægðir með hve illa gengur að fá til baka þá peninga sem þeir í raun og veru eiga að fá. Þar er um ákveðnar krónutölur að ræða og mönnum finnst þetta dálítið flókið ferli. Því er nauðsynlegt að í öllum þessum umhverfismálum og úrvinnslugjaldamálum sé þetta eins einfalt og mögulegt er þannig að það gangi vel fyrir sig að menn fái til baka það sem þeim ber.

Býsna vel hefur tekist til varðandi bílhræ og annað slíkt. Það hefur gengið mjög vel en ekki eins vel t.d. í sambandi við landbúnaðarplastið sem hefur gengið allt of treglega.

Enn og aftur fagna ég framkomu frumvarpsins og ég vona að það verði til þess að þessi mál skýrist enn frekar og við berum gæfu til að umræddur málaflokkur standi undir sér, þ.e. að þeir sem menguninni valda þurfi að greiða fyrir hana.