Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 18. október 2005, kl. 17:33:07 (666)


132. löggjafarþing — 10. fundur,  18. okt. 2005.

Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

21. mál
[17:33]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Frumvarpið lýtur fyrst og fremst að því að markaður sé rammi í lögum um stærð framleiðslueininga, fyrst og fremst til að tryggja framleiðsluöryggið en einnig til að tryggja gæði framleiðslunnar og að þau markmið fari saman við stefnu stjórnvalda í landbúnaðarmálum og í takt við almannahag. Tillögugreinin hljóðar svo:

„Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 53. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Sami aðili getur að hámarki verið handhafi réttar til beingreiðslna sem svara til 1% af heildargreiðslumarki. Einkahlutafélag getur því aðeins verið handhafi réttar til beingreiðslna samkvæmt greiðslumarki að ábúandi á viðkomandi lögbýli eigi að minnsta kosti 10% hlutafjár og fari með að minnsta kosti 50% atkvæða í félaginu.“

Þetta frumvarp var lagt fram á síðasta þingi en komst þá ekki á dagskrá. Það er því endurflutt.

Á árunum 1996–2004 fækkaði kúabúum á Íslandi úr 1.291 í 854 eða um 34%. Nýjustu tölur fyrir árið 2005 sýna að fjöldi kúabúa á landinu er kominn niður fyrir 800. Meðalframleiðsla á bú jókst á sama tíma um 67%. Þessari þróun hefur fylgt mikil tilfærsla á greiðslumarki í mjólkurframleiðslu og verð á greiðslumarki hefur að sama skapi hækkað gífurlega hin síðustu ár. Mesta hreyfingin á greiðslumarkinu er hjá stærri búunum, eins og sést á því að í árslok 2003 voru þau 140 kúabú sem höfðu hvorki keypt né selt greiðslumark frá árinu 1992 að meðaltali með rúmlega 65.000 lítra, sem er rétt rúmur helmingur af framleiðslu meðalbúsins árið 2003. Þá var enn um fjórðungur kúabænda í landinu með greiðslumark innan við 100.000 lítra. Af þessu sést greinilega að það eru stærri búin sem stækka mest.

Margar ástæður eru fyrir samþjöppun á greiðslumarki í mjólk undanfarin 10–12 ár. Þar má nefna kröfur um hagræðingu, ný viðhorf til aðbúnaðar búfjár, auknar gæðakröfur til mjólkurframleiðenda, fólksfækkun í sveitum, fækkun mjólkursamlaga, vélvæðingu í búskap og, síðast en ekki síst, hið geysiháa verð á greiðslumarki og hækkandi verð á bújörðum á frjálsum markaði.

Á hinn bóginn verður ekki fram hjá því litið að réttur til beingreiðslna, þ.e. greiðslna sem ríkið greiðir til framleiðenda vegna mjólkurframleiðslu er takmörkuð auðlind, þ.e. hún er bundin í samningum við ákveðið fjármagn miðað við ákveðinn fjölda lítra. Mikil eftirspurn og hátt verð hafa að undanförnu breytt miklu um möguleika þeirra sem vilja starfa við kúabúskap til að hasla sér völl í greininni. Ekki er einungis að nýliðun sé nær útilokuð, því svo mikið fjármagn þarf til að bæta verulega við greiðslumark hvers starfandi bús að sífellt færri eiga þess kost nema með mikilli skuldsetningu. Enda eru mörg kúabú nú á landinu orðin afar skuldsett. Þróunin minnir óneitanlega sífellt meira á framvindu mála í sjávarútvegi eftir að verslun með aflamark var gefin frjáls. Ekki þarf að tíunda hér þær harðvítugu deilur sem urðu og standa enn um eignarhald á veiðiheimildum í sjávarútvegi. Það mál er reyndar óleyst enn og við vitum að margar byggðir blæða fyrir þá stefnu sem þar ríkir.

Ljóst er að viðlíka ástand í landbúnaði mundi gerbreyta viðhorfum landsmanna til stuðnings við innlenda framleiðslu. Sú bærilega sátt sem hefur til þessa ríkt um íslenskan land búnað vegna atvinnu-, byggða- og öryggissjónarmiða hvílir fyrst og síðast á þeim grunni að framleiðslan sé á höndum fjölskyldubúa en ekki verksmiðjubúa, sem þekkt eru frá öðrum löndum. Stefnan hér hefur verið sú að búvöruframleiðslan haldist í fjölskyldurekstri í öllum meginatriðum.

Jafnframt liggur í augum uppi að þróun mjólkurframleiðslunnar í átt til færri og stærri búa fylgir vaxandi áhætta eftir því sem sú samþjöppun gengur lengra. Áföll af einhverju tagi hjá örfáum stórframleiðendum geta sett framboð á innlendum mjólkurvörum í uppnám þegar einstök bú standa undir mjög stórum hluta mjólkurframleiðslunnar í landinu.

Hér er því lagt til að sami handhafi geti að hámarki farið með 1% af heildargreiðslumarki. Velta má fyrir sér hversu hátt slíkt hlutfall á að vera. Markmið frumvarpsins er að takmarka samþjöppun á rétti til beingreiðslna og koma í veg fyrir að hátt verð á greiðslumarki geri minni framleiðendum ókleift að stækka við sig. Enn fremur að stuðla að því að þeir fjármunir sem ætlaðir eru til að treysta undirstöður búvöruframleiðslunnar, byggð og atvinnulíf í dreifbýli skili sér til starfandi bænda en séu ekki teknir til annarra nota af kaupsýslumönnum.

Þessi mál hafa mjög verið til umræðu meðal bænda og má í því sambandi benda á erindi Búnaðarsambands Skagfirðinga og Svínaræktarfélags Íslands til búnaðarþings árið 2004. Búnaðarþing ályktaði þá sérstaklega um ákveðna þætti þessa máls. Landssamband sauðfjárbænda ályktaði jafnframt um málið á aðalfundi sínum í vor.

Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna aðeins í þær ályktanir sem snerta þetta:

Í erindi til búnaðarþings í janúar 2004 ályktar Búnaðarsamband Skagfirðinga:

„Bændafundur haldinn í Svaðastöðum, 21. janúar 2004, beinir eftirfarandi til búnaðarþings og búgreinafélaga:

Nú liggur fyrir að gera og/eða endurskoða samninga um rekstrarumhverfi fyrir nautgriparækt, sauðfjárrækt og loðdýrarækt. Í þeirri samningagerð telur fundurinn að meginmarkmið eigi að vera:

1. Að það fjármagn sem ríkið leggur fram verði notað til að viðhalda og efla byggð í sveitum landsins.

2. Stuðla að því að fjármagnið renni til framleiðslunnar á hverjum tíma og verði raunverulegar tekjur fyrir starfandi bændur.“

Því er þessi ályktun sett fram að þær beingreiðslur sem renna, t.d. til mjólkurframleiðslunnar, eru bundnar við framleidda lítra. En þar er ekki nein takmörkun á stærð búa til þess að njóta réttarins til beingreiðslna. Við samþjöppun á framleiðsluréttinum verða framleiðendur bara færri og byggðin getur af þeim orsökum skroppið saman. Um þetta er Búnaðarsamband Skagfirðinga að álykta, að það geti ekki verið tilgangur ríkisins með beingreiðslum að setja bú með beinum eða óbeinum hætti í eyði.

Svínaræktarfélag Íslands ályktaði um þessi mál í mars 2004, en í svínaræktinni er framleiðslan komin á örfárra manna hendur. Mörgum kann að finnast það skondið en ég held að KB-banki sé langstærsti svínabóndi landsins. Það er í sjálfu sér umhugsunarvert þegar fjármálastofnanir stunda landbúnaðarframleiðslu árum saman og eru jafnvel í samkeppnisrekstri eins og í svínarækt. En þannig er þetta. Það hefur orðið gríðarlega hröð fækkun í framleiðslu svínakjöts og því ærin ástæða til að hafa af því áhyggjur út frá öryggissjónarmiði, ef við ætlumst til þess að innlend framleiðsla fullnægi innlendri eftirspurn eftir þeirri vöru.

Ályktun Svínaræktarfélags Íslands var svohljóðandi:

„Framleiðsluöryggi, samkeppni og sjálfbær þróun í íslenskum landbúnaði.

Búnaðarþing 2004 samþykkir að beina þeim tilmælum til stjórnvalda að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði kjötframleiðslunnar í landinu. Markmiðið verði að leita leiða til að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslensk kjötframleiðsla verði rekin á forsendum sjálfbærrar þróunar og að framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi og lágmarkssamkeppnisskilyrði. Reynt verði að finna leiðir til að hindra fákeppni í kjötframleiðslu hér á landi.

Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:

1. Að sett verði þak á hámarkshlutdeild hverrar framleiðslueiningar innan sömu framleiðslugreinar, í því skyni að ná fram markmiðum um framleiðsluöryggi og til að hindra fákeppni.“

Það er athyglisvert, herra forseti, að þarna er verið að benda á að framleiðslan geti verið komin á svo fáar hendur að öryggi hennar gagnvart neytendum geti verið í hættu. Það þarf ekki nema að upp komi veiki á einu búi sem er með stóran hluta af framleiðslunni og vara þaðan gæti ekki farið á markað. Þarna er því verið að benda á að öryggi neytenda þeirrar vöru geti verið ógnað ef hún er komin á of fárra manna hendur.

Í öðru lagi segir í ályktun Svínaræktarfélags Íslands:

„2. Að komið verði á fót sérstöku innra eftirliti með því að vara sé ekki seld langtímum saman undir sannanlegu kostnaðarverði. Jafnframt verði hugað að breytingum á samkeppnislögum í sama tilgangi.“

Við höfum rætt þetta atriði áður á Alþingi, þ.e. hvaða ógn getur stafað af því þegar framleiðsla ákveðinnar vöru er komin í hendur mjög fárra aðila. Þá er í rauninni ekki nein samkeppni lengur og ekki síst eins og við höfum mátt búa við þegar bankar og fjármálastofnanir hafa yfirtekið stór bú eins og í svínakjötsframleiðslunni og þess eru reyndar líka dæmi í kjúklinga- og eggjaframleiðslu að bankar og fjármálastofnanir hafi yfirtekið búin og rekið þau áfram í samkeppni við bændur sem reka bú sín á rekstrarlegum forsendum. Þessar fjármálastofnanir eða aðrir slíkir stóraðilar geta leyft sér að bjóða fram vöruna á undirverði í takmarkaðan tíma til þess að styrkja samkeppnisstöðu sína. Slíkt er afar óréttmætt og ætti náttúrlega ekki að vera heimilt enda eru víða erlendis skorður við því að það megi til lengri tíma undirbjóða vörur sem eru á samkeppnismarkaði eða selja þær undir framleiðslukostnaðarverði, eins og við máttum upplifa á kjötmarkaðnum fyrir nokkrum missirum. Þetta getur vofað yfir okkur hvenær sem er þegar framleiðslan er komin á örfárra manna hendur, í hendur örfárra fyrirtækja sem geta leyft sér að dumpa verðinu niður tímabundið til þess að ná markaði. Við þessu er varað í samþykkt Svínaræktarfélags Íslands.

Þar er einnig lögð áhersla á að öll kjötframleiðsla í landinu lúti sömu grundvallarskilyrðum varðandi starfsleyfi og að skilyrði verði sett í starfsleyfi bús um að það hafi yfir að ráða nægilega stóru landi til að dreifa á búfjáráburði í samræmi við íslenskar aðstæður.

Þarna er verið að vitna til gríðarlegs máls varðandi svínabúin og að einhverju leyti líka varðandi kjúklingabúin. En fyrst og fremst varðar þetta svínabúin þannig að verði þau mjög stór eiga að gilda reglur um hvernig farið skuli með mykjuna frá þeim. Erlendis er krafist að hvert bú hafi yfir að ráða það miklu landi til dreifingar eða hafi samninga um dreifingu á þessum búfjáráburði að engin hætta eða mengun geti stafað af. Slíkar reglur eru ekki til hér og engin eftirfylgni eftir að svo sé. Þetta er eitt af því sem þeir benda á að þurfi að huga að þegar búin eru orðin stór og þeir leggja til að tekin séu upp starfsleyfi þar sem m.a. er kveðið á um þessa þætti. Þetta hefur áður verið rætt í þingsölum varðandi svínabúin, um dreifingu eða meðferð á úrgangi, mykju og öðru frá þeim og mér vitanlega hafa ekki komið neinar viðhlítandi reglur um það né yfirlýsing um að fullnægjandi ástand sé á þeim búum sem núna eru rekin. Þetta bendir Svínaræktarfélag Íslands á varðandi hættuna sem verður við samþjöppun og fákeppni í framleiðslu landbúnaðarvara.

Í ályktun frá búnaðarþingi frá í mars árið 2004 segir eftirfarandi:

„Búnaðarþing árið 2004 beinir því til landbúnaðarráðherra að skipuð verði nefnd til að kanna umgjörð og starfsskilyrði landbúnaðarins. Markmiðið verði að tryggja, eftir því sem unnt er, að íslenskir framleiðendur og neytendur búi við ákveðið framleiðsluöryggi. Sérstaklega verði hugað að eftirfarandi:

„1. Að sett verði hámarkshlutdeild einstaka framleiðslueininga innan hverrar framleiðslugreinar, byggt á öryggis- og umhverfissjónarmiðum fyrir neytendur og framleiðendur.“

Það er viss stefnubreyting sem þarna er ýjað að í ályktun búnaðarþings, að fákeppni, stærð bús, hlutfallsleg stærð bús miðað við heildarframleiðsluna og þörf neytenda geti ógnað öryggi neytenda, geti líka ógnað gæðum vörunnar, geti líka ógnað umhverfisþáttum framleiðslunnar og að þessu þurfi landbúnaðarframleiðslan að huga en hefur gert mjög takmarkað til þessa. Það verður að segjast, því miður, herra forseti.

„2. Að opinbert eftirlit með búvöruframleiðslu verði samræmt um land allt. Einnig að skilyrði starfsleyfa verði samræmd í þeim greinum þar sem þeirra er krafist.“

Varðandi starfsleyfin til að reka bú þá er þarna aftur áréttað hversu veik umgjörð búrekstursins er að setja þurfi ákvæði um starfsleyfi þar sem kveðið er á um öryggi og gæði framleiðslunnar og síðan hina ýmsu umhverfisþætti sem verða að vera í lagi til að landbúnaðarframleiðslan falli að þeim kröfum sem við gerum. Við skulum líka vera minnug þess að Ísland og íslensk stjórnvöld hafa undirgengist skuldbindingar um að landbúnaðarframleiðslan sem og önnur framleiðsla lúti og sé gerð samkvæmt lögmálum um sjálfbæra þróun. Þetta höfum við undirritað en í þeim ályktunum sem ég er að lesa upp er bent mjög rækilega á að það skortir verulega á að sú umgjörð sem við höfum sett landbúnaðarframleiðslunni uppfylli þær reglur og kröfur sem sjálfbær þróun gerir til öryggissjónarmiða og umhverfisþátta framleiðslunnar. Enda segir líka áfram í ályktun búnaðarþings frá 2004:

„3. Að starfsleyfisskyld bú geti sýnt fram á að þau hafi nægilegt land til dreifingar á búfjáráburði, eða að þau geti ráðstafað honum á annan viðunandi hátt, í samræmi við íslenskar aðstæður og umhverfissjónarmið.“

Þarna áréttar einnig búnaðarþing og tekur undir ályktanir Svínaræktarfélags Íslands um þessi umhverfisskilyrði sem hvert bú verði að hafa til þess að hafa starfsleyfi.

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda, 7.–8. apríl árið 2005, ályktar einnig um þetta mál en þar segir, með leyfi forseta:

„Skilyrði fyrir greiðslum úr sauðfjársamningi er að greiðsluþegi hafi fasta búsetu á svæðinu (innan 50 km) þar sem framleiðslan fer fram. Sé sauðfjárbú rekið af lögaðila skal einn af eigendum, sem á að lágmarki 25% af félaginu, hafa búsetu á svæðinu þar sem framleiðslan fer fram.“

Þarna eru Landssamtök sauðfjárbænda að hnykkja á nákvæmlega sömu atriðum og aðrir eins og t.d. í Svínaræktarfélag Íslands sem ég vitnaði í. Landssamtökin kalla eftir lögum og reglum til að starfa eftir varðandi þau atriði sem ég hef hér minnst á, framleiðsluöryggisatriði, búsetuatriði, umhverfisatriði og öryggi gagnvart neytendum.

Búnaðarþing ályktar einnig ítrekað um málið 6.–10. mars árið 2005. Í ályktun búnaðarþings stendur:

„Búnaðarþing 2005 beinir því til stjórnar Bændasamtaka Íslands að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að meta hvort setja eigi reglur, og þá hvers konar, um hámarkshlutdeild framleiðslueininga í beingreiðslum í landbúnaði. Hópurinn fái enn fremur það hlutverk að meta hvort þörf sé á aðgerðum sem beinast gegn samþjöppun á eignarhaldi bújarða. Stjórn Bændasamtaka Íslands leiti eftir því við Landssamband kúabænda, Landssamtök sauðfjárbænda og Samband garðyrkjubænda að þau tilnefni einn mann hvert í starfshópinn og að tveir komi frá stjórn Bændasamtaka Íslands.“

Búnaðarþing sem haldið var á síðastliðnum vetri ákvað að setja niður formlegan starfshóp í málið til að fara yfir þessi atriði, þessa umgjörð, hvort setja eigi reglur um hlutfallslegar hámarksstærðir á búum, hvort það sé verjandi og rétt að beingreiðslur ríkisins fari til framleiðslueininga í landbúnaði, mjólkur- og sauðfjárframleiðslu óháð bústærð, eða hvort setja eigi þar einhverjar skorður við. Ég er þeirrar skoðunar og hef heyrt það hjá fleirum að setja ætti ákveðnar skorður, beingreiðslur í landbúnaði ættu að miðast upp að einhverri ákveðinni bústærð en trappast síðan niður og hverfa þegar bústærð fer yfir ákveðið mark þannig að ríkið sé ekki að styðja við slíkan stórbúrekstur, það verði að vera innri hagkvæmni sem drífur það áfram. En að sjálfsögðu verður að setja öll önnur umhverfisatriði og öryggisatriði varðandi framleiðsluna í forgrunn.

Herra forseti. Það er því alveg augljóst að flestöll samtök bænda vilja að tekið verði á þessum málum og ég hef því í því frumvarpi sem ég legg hér fram lagt til að það verði gert. Ég legg til varðandi t.d. mjólkurframleiðsluna að mörkin séu að einn framleiðandi megi bara eiga 1% af heildargreiðslumarki í mjólkurframleiðslunni. Það þýðir að rúmlega ein milljón lítra á bú sé sett sem hámark. Það er mjög brýnt að setja slík mörk hvort sem það er sú stærð eða önnur sem mönnum finnst ásættanleg.

Við heyrum nú talað um að einstakir aðilar séu að kaupa upp framleiðslurétt bæði í mjólkurframleiðslu og sauðfjárframleiðslu og geti m.a. fært þá framleiðslu á milli búa. Ef sú aðgerð gengur of langt getur hún stefnt framleiðsluörygginu í hættu, hún getur stefnt þeim gæðakröfum sem gerðar eru í mjólkurframleiðslunni í hættu og hún getur einnig stefnt framleiðsluöryggi og gæðaöryggi á vörunni gagnvart neytendum í hættu. Ég tel mjög mikilvægt að tekið sé á þessum þremur atriðum.

Ýmis önnur atriði sem tengjast þessu væri vert að ræða. Það væri vert að ræða hversu rétt sú þróun sé að fyrirtæki eða einstaklingar kaupi upp jarðir og safni framleiðslurétti, t.d. ef sami aðili er kominn með verulega stóran hluta af framleiðslurétti í mjólk. Hann er þá ekki aðeins farinn að geta haft áhrif á framleiðsluöryggið heldur er hann þá einnig orðinn stærri eigandi í viðkomandi afurðasölufyrirtæki. Eins og við vitum eru afurðastöðvar bænda eins og mjólkurstöðvarnar efnuð og sterk fyrirtæki og hafa mjög sterka eiginfjárstöðu. Þannig geta einstaklingar sem komast yfir stóran hlut í mjólkurframleiðslunni aukið rétt sinn í því fyrirtæki og síðan farið að gera hærri arðsemiskröfur og óska eftir útgreiðslu á arði.

Ég ætla þó ekki að gera þetta að aðalumtalsefni hér heldur, eins og ég hef gert, það sem lýtur að öryggi gagnvart framleiðendum og neytendum og því að varan sé framleidd hér á landi í sátt við umhverfið samkvæmt lögmálum um sjálfbæra þróun sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist.

Frú forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur einmitt flutt tillögur í þinginu varðandi landbúnaðinn sem lúta að þessum þáttum málsins. Ég nefni tillögu sem við fluttum um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum þar sem farið er inn á það að ríkið og samfélagið standi að öðrum stuðningsaðgerðum við atvinnulíf og búsetu í sveitum en magntengdum greiðslum. Í því frumvarpi sem ég legg fram er lögð áhersla á að marka þurfi þessum framleiðslugreinum í landbúnaði ákveðinn sess, ákveðinn ramma þar sem hagsmunir neytenda og þjóðarinnar eru hafðir í fyrirrúmi.

Frú forseti. Að lokinni umræðu óska ég eftir að frumvarpi mínu verði vísað til hv. landbúnaðarnefndar.