Ritun sögu þingræðis á Íslandi

Fimmtudaginn 20. október 2005, kl. 13:39:20 (818)


132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Ritun sögu þingræðis á Íslandi.

[13:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir meðferð þess erindis sem ég átti við forseta. Hún hefur leyst mjög ljúflega úr þeim formflækjum sem fyrir hendi voru. Ég vil geta þess að ég hef lagt fram frumvarp sem bætir úr þessum ágalla á þingsköpum, sem ég tel vera, og kemur það vonandi til umræðu síðar í haust.

Um svarið sjálft er það fyrst að segja að eðlilegt hefði verið að fyrrverandi forseti, sem lét sér þetta til hugar koma árið 2000 og við erum fyrst að frétta af nú fimm árum síðar, hefði, með forsætisnefnd ef verkast vildi, flutt um þetta þingsályktunartillögu á þinginu þannig að við í salnum, fulltrúar almennings og fjárveitingavaldið, hefðum getað rætt þessa hluti í ró og næði með þinglegum hætti og á góðum tíma. Í staðinn fer fyrrverandi forseti af stað og ræðir við hina og þessa, samkvæmt upplýsingum úr blöðunum, og staðnæmist að lokum við áhugamann sem um þessar mundir hefur lítið að gera. Síðan kvittaði næsti forseti og forsætisnefnd gjörvöll upp á ákvörðun fyrrverandi forseta Alþingis, nú hv. þm. Halldórs Blöndals.

Maðurinn sem velst, hver er hann? Það er gamall stjórnmálamaður, fyrrverandi sendiherra, nú á nokkuð vænum eftirlaunum, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem enn gegnir pólitískum störfum fyrir þann flokk. Hann situr í stjórnarskrárnefnd skipaður af Sjálfstæðisflokknum.

Það er mætur maður, Þorsteinn Pálsson — mætur maður, lögfræðingur að mennt. Það er hins vegar þannig að Þorsteinn Pálsson er byrjandi í fræðiskrifum, að því er mér virðist. Þegar flett er upp í Gegni, gagnasafni Landsbókasafns – Háskólabókasafns, þá finnst ekkert fræðiverk eftir Þorstein Pálsson.

Það er sérkennilegt að Alþingi ætli sér að ráðast í útgáfu byrjendaverka og skipi til þess þrjá leiðbeinendur. Maður óskar auðvitað upplýsinga um það hvort þetta eigi að halda svona áfram, hvort Alþingi ætli sér að verða eins konar endurmenntunarstöð fyrir fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins. Fróðlegt.