Ferðasjóður íþróttafélaga

Fimmtudaginn 03. nóvember 2005, kl. 16:13:45 (971)


132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:13]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í dag þá er hér bráðnauðsynleg tillaga á ferðinni og ég tek það skýrt fram að ég er sammála henni. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir nauðsyn þess að koma á fót ferðasjóð fyrir íþróttafélögin í landinu. Greinargerðin segir í sjálfu sér flest það sem þarf að segja. Þessi tillaga hefur komið fram áður og það er skoðun þess sem hér stendur að hún hafi verið svæfð í nefnd. Hvers vegna? Hver er það sem stoppar? Það hefur verið rætt hérna áður í dag hver það er eða hvar það er sem þetta stoppar. Það er mín skoðun að það sé fyrst og fremst á flutningsmönnunum sjálfum. Áhugi á því að koma þessari þingsályktunartillögu alla leið er ekki til staðar.

Þessi tillaga kom fyrst fram á þingi 2002–2003. Þá fluttu hana framsóknarmennirnir Hjálmar Árnason og Ísólfur Gylfi Pálmason. Ekki fór hún í gegn þá. En í framhaldi af því kom góð áskorun frá Íþrótta- og Ólympíusambandinu, samþykkt á formannafundi, sem ég ætla að leyfa mér að lesa úr: Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Augljóslega leggst ferðakostnaðurinn þyngra á sum íþróttafélög en önnur af landfræðilegum ástæðum. Ef hægt væri að koma á þessum ferðasjóði íþróttafélaga væri hægt að jafna þennan aðstöðumun og stuðla þannig að öflugra íþróttastarfi í landinu. Hér er um eðlilega jöfnunaraðgerð að ræða. Það er álit formannafundar ÍSÍ að ferðasjóður væri mikill styrkur við íþróttastarfið í landinu.“

Ekki fór þingsályktunartillagan í gegn. Hún var lögð fram aftur á 130. löggjafarþingi. Flutningsmönnum var að vísu farið að fjölga aðeins en aftur var hún svæfð.

Þegar maður lítur yfir ræður sem haldnar voru þegar tillagan var lögð fram síðast þar sem að vísu ekki tjáðu sig margir aðrir en hv. þingmenn Hjálmar Árnason og Guðjón Hjörleifsson, þá segir í ræðum þeirra m.a. að þeir telji að flestir geti verið sammála um að fátt sé hverju byggðarlagi mikilvægara en öflug íþróttahreyfing og hún sé afskaplega mikilvæg í tilveru hvers og eins byggðarlags. Lagt var til að málinu yrði vísað til menntamálanefndar eins og áður og eins var gert í dag. Málið fór til menntamálanefndar í fyrra og sofnaði þar.

Þrátt fyrir að flutningsmenn leggi tillöguna fram og fylgi henni svo ekki sjálfir eftir í menntamálanefnd, sem hlýtur að vera rétti staðurinn, eru þeir ekki of góðir til að hæla sér af henni t.d. í Bændablaðinu þar sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir fór ítarlega yfir að þetta væri m.a. hennar hugmynd og þessu máli ætlaði hún að koma í gegn.

Hvað er það versta í þessu öllu? Það versta er að þó að menn kannski standi hér og telji sig ekki hafa gefið loforð þá hafa þeir vakið væntingar. Það er rétt að mörg íþróttafélög úti á landi borga 20 og jafnvel upp í 38 milljónir í ferðakostnað á hverju ári. Íþróttafélög á suðvesturhorninu eru kannski við sömu eða svipaðar aðstæður að greiða einungis 3 milljónir. Að sjálfsögðu er það alvarlegt mál en alvarlegast er þó ef menn eru að leggja fram mál án þess að nokkur meining sé á bak við.

Frú forseti. Þessi tillaga er komin fram enn og aftur. Í dag hafa a.m.k. tveir ef ekki þrír flutningsmenn tillögunnar lofað að fylgja henni alla leið. Jafnframt hafa þau öll lýst yfir áhyggjum eða að þau skilji ekki hvers vegna í ósköpunum málið stoppar. Ég er búinn að fara lauslega yfir hversu oft þessi tillaga hefur verið lögð fram, hverjir hafa flutt hana o.s.frv. en það er alveg skýrt í mínum huga að eina ástæðan fyrir því að tillagan hefur ekki náð í gegn hingað til er sú að flutningsmenn sjálfir meina ekkert með tillögunni. Þeir standa ekki að baki henni í menntamálanefnd, þeir gera ekki tilraun til að koma henni þar í gegn. Þar er ekki nokkur eftirfylgni af hálfu flutningsmanna við málið.

Ég ítreka það sem verst er í þessu öllu, það eru væntingarnar. Ég átti fund um daginn með tveimur Ísfirðingum sem veltu fyrir sér rekstri íþróttafélaga á suðvesturhorninu, sameiningu íþróttafélaga o.s.frv. Þeir spurðu í lokin: Hvernig er með þessa tillögu um ferðasjóð íþróttafélaga? Þeir trúðu því enn þá að tillagan væri í fullum gangi. Þeir höfðu ekki hugmynd um að búið væri að svæfa hana, enginn þorði að nefna það við þá. Þetta eru væntingarnar sem ég er að tala um. Þarna er um að ræða menn sem vinna í sjálfboðavinnu fyrir íþróttafélög á Ísafirði og mestur tími þeirra fer í að reyna að safna 20 milljónum fyrir ferðakostnaði. Þessum mönnum er full alvara og þeir standa á bak við mikið og göfugt íþróttastarf. Því eiga þeir sem starfa á hinu háa Alþingi ekki að særa þetta fólk með því að leggja fram tillögur sem engin meining er á bak við. Ég skora á flutningsmenn að fylgja tillögunni alla leið núna.