Ferðasjóður íþróttafélaga

Fimmtudaginn 03. nóvember 2005, kl. 16:25:23 (976)


132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Ferðasjóður íþróttafélaga.

24. mál
[16:25]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan um þetta prýðilega mál, ferðasjóð íþróttafélaga, hefur kannski þróast út í það í dag að ræða um þær leiðinlegu venjur sem skapast hafa á Alþingi að þingmannamál ná eiginlega aldrei fram að ganga, ekki heldur þau sem eru frá stjórnarliðum. Það er dapurleg þróun. Það er eins og málin séu ekki tekin alvarlega, þau ná einhvern veginn ekki því máli að vera tekin til raunverulegrar afgreiðslu í nefndunum þannig að þau fari þar í forgang, þó að verið sé að ræða brýn mál og merkileg sem samstaða er um.

Málið sem hér um ræðir, ferðasjóður íþróttafélaga, er að sjálfsögðu mál sem er þverpólitískt og hafið yfir allar flokkslínur. Menn hafa lesið hér úr háheilögum landsfundarályktunum, meira að segja frá Sjálfstæðisflokknum. Ef skilja mátti þá ályktun rétt var hægt að túlka hana þannig að landsfundurinn væri ekki á móti þessu máli og menn hljóta því að hafa frjálsar hendur. Það er óþægilegt ef sjálfstæðismenn í þinginu láta þessa góðu tillögu líða fyrir það að 1. flutningsmaður hennar er ekki sjálfstæðismaður. Meðflutningsmaður núna er hv. þm. Guðjón Hjörleifsson sem talaði í umræðunni áðan og studdi tillöguna mjög eindregið. Það er því hægt að binda vonir við að hún nái fram að ganga.

Örstutt að efni tillögunnar. Um er að ræða brýnt mál sem jafnvel má segja að leyni á sér af því að málið snertir marga. Við ræðum oft í þinginu að styðja þurfi hinar dreifðu byggðir, byggðirnar sem eru lengst frá þéttbýlinu á suðvesturhorninu þar sem stór hluti þjóðarinnar býr núorðið, og hvaða leiðir hægt sé að fara til að gera það. Sumar þeirra eru ákaflega kostnaðarsamar, aðrar ekki. Hér er um að ræða mál sem er ekki kostnaðarsamt á hinn stærri mælikvarða og alls ekki á kvarða sem lagður væri ef gildi málsins er dregið fram sem er íþróttastarf ungmenna, forvarnastarf unglinga. Þetta er gríðarlega mikilvæg fjárfesting í forvörnum ungmenna því að hægt er að staðhæfa að í baráttunni gegn fíkniefnum, löglegum og ólöglegum, hvers kyns vímugjöfum, tóbaki, áfengi og eiturlyfjum, þá er regluleg íþróttaástundun langbesta forvörnin. Það er hafið yfir allan vafa. Unglingar og börn sem stunda íþróttir og gera það reglulega og ílengjast í því fram á unglingsár og í gegnum unglingsárin eru einfaldlega til svo mikilla muna ólíklegri til að ánetjast fíkniefnum eða neyta þeirra í óhófi og byrja að neyta þeirra miklu seinna og eru þar með nánast komin úr áhættuhópnum. Það er óumdeilt. Allar rannsóknir styðja það og þetta er almenn vitneskja.

Þess vegna eigum við að leggja svo mikið kapp á að efla íþróttastarfið í landinu. Hér er tillaga sem mælt er fyrir um ferðasjóð íþróttafélaga sem segja má að hleypi nýju lífi í og skjóti nýjum stoðum undir íþróttalíf úti á landi. Að sjálfsögðu er mikill ferðakostnaður íþróttafélaga sem lengst eru í burtu frá keppnisvöllunum sem tíðast eru notaðir að sliga félögin og þar með að veitast alvarlega að því mikilvæga forvarnastarfi og íþróttastarfi sem fer fram í félögunum, kostnaður vegna keppnisferðalaganna er svo hár. Öll orkan fer í að safna fyrir þeim og allir fjármunirnir fara í ferðakostnaðinn í stað þess að fara í aðra hluti í innra starfinu.

Efnislega séð held ég að hver einasti þingmaður sé sammála tillögunni. Aldrei hafa komið fram svo að ég hafi heyrt efasemdir um að málið ætti að ná fram að ganga. Og ef vegin væru þau útgjöld sem sett eru í hin ýmsu verkefni er þetta ákaflega hófleg og kostnaðarlítil tillaga miðað við þær afleiðingar sem hún hefði, sem eru þær að efla íþróttastarf, sérstaklega úti á landi.

Ég vona að við horfum fram á það nú þegar tillagan er flutt í þriðja sinn að hún nái fram að ganga. Við þurfum ekki að deila frekar um af hverju hún hafi ekki gert það. Sú hefð hefur skapast í þinginu á síðustu áratugum að þingmannamál ná eiginlega aldrei fram að ganga. Það er mjög óþægilegt og vont, það letur menn til þess að bera fram tillögur til þingsályktunar eða lagafrumvörp og breytingar á lögum um hin mikilvægustu mál sem gætu vakið athygli og umræður og leitt til þarfra þjóðfélagsbreytinga. Þetta hefur þróast á þann veg að gríðarlegur fjöldi fyrirspurna kemur fram á hverjum vetri en þingmálum frá þingmönnum hefur farið stórfækkandi svo tugum skiptir, enda telja menn vonlaust að mál nái fram að ganga nema í einhverjum undantekningartilfellum.

Ég styð þetta mál að sjálfsögðu heils hugar og vona að það nái fram að ganga. Ég vona að nefndarmenn í menntamálanefnd hefji sig yfir það að virða málið ekki viðlits og afgreiða það ekki út úr nefnd vegna þess að þar sé um að ræða þingmannamál heldur nái málið fram að ganga og við sjáum það koma til síðari umræðu seinna í þinginu.