Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 16:21:31 (1188)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Stjórn fiskveiða.

17. mál
[16:21]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gladdi mig að hv. þingmaður nefndi hér Ásgeir Guðbjartsson, sem hafði verið honum samskipa í skóla. Hann var einmitt fyrsti skipstjórinn sem ég lærði hjá til sjómennsku á Guðbjörginni forðum tíð. Ég er þeirrar skoðunar að miklu máli skipti að breyta stjórnkerfi fiskveiða þannig að hægt sé að auka frelsi og tryggja nýliðun í stétt sjómanna og útgerðarmanna. Það er þess vegna sem ég hef fylgt þeirri stefnu að nauðsynlegt sé, með einhverjum hætti, að taka til baka í smáum árlegum áföngum hluta af úthlutuðu aflamagni til þess að leyfa öðrum að standa jafnfætis þeim sem fyrir eru í atvinnugreininni.

Ég er sammála hv. þingmanni um að kvótakerfið hefur brugðist sem fiskverndarstefna. Ég ítreka það sem ég sagði um daginn, í ræðu sem hv. þingmaður vitnaði til, að það er ekki hægt annað en að draga þá ályktun að stjórnkerfi fiskveiða hæfi ekki líffræðinni í hafinu. Ég ítreka líka að stjórnkerfið, eins og við þekkjum það, var tekið upp til að vernda auðlindina í hafinu og styrkja fiskstofnana. En það hefur ekki gerst.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í frumvarpið sem hann leggur hér fyrir. Ég ber fulla virðingu fyrir viðleitni Frjálslynda flokksins í þessum efnum. Ég segi það hins vegar alveg hreinskilnislega að mér finnst töluvert í lagt að ætla að veita óhefta sókn 30 rúmlesta báta með tvo kalla á og fjórar rúllur sem megi sækja hvern einasta dag ársins ef gefur. Mér finnst skorta, í greinargerð með frumvarpinu, á að fram komi hvað þetta þýðir í afla. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hann að einn slíkur bátur gæti að meðaltali aflað af þorski? Hversu mikil sókn telur hann að verði í þetta frelsi ef það yrði samþykkt? Í þriðja lagi: Hvers má vænta? Hver verður heildarafli á slíkum flota eftir (Forseti hringir.) t.d. tíu ár frá upptöku kerfisins?