Fullorðinsfræðsla

Þriðjudaginn 08. nóvember 2005, kl. 18:04:37 (1207)


132. löggjafarþing — 17. fundur,  8. nóv. 2005.

Fullorðinsfræðsla.

25. mál
[18:04]
Hlusta

Flm. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem ég flyt ásamt öðrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar og hljóðar tillögutextinn svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta semja og leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um fullorðinsfræðslu með það að markmiði að efla og treysta fullorðinsfræðslu í landinu og skýra hlutverk þeirra sem að þessari menntun koma, bæði hvað varðar fjármögnun og námsframboð. Við undirbúning lagafrumvarpsins verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, samtök sveitarfélaga og menntastofnanir. Lagafrumvarpið verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2006.“

Herra forseti. Segja má að það sé eiginlega með ólíkindum að ekki skuli vera neinn lagarammi um fullorðinsfræðslu svo mikil sem hún er í landinu og svo mikil þörf sem er fyrir slíka fræðslu. Við höfum lög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla en engan lagaramma um fullorðinsfræðslu, sem er hins vegar orðin stöðugt viðameiri og nauðsynlegri af þeirri einföldu ástæðu að samfélag nútímans kallar á að fólk sé að mennta sig meira og minna alla ævi. Það hefur margoft verið sagt að lykilatriði varðandi uppbyggingu þess þekkingarsamfélags sem við lifum í og mannauðs sé stóraukin áhersla á fullorðinsfræðslu og símenntun. Stöðugt hraðari samfélagsbreytingar og ný tækni gera kröfu um stöðuga endurnýjun og nýsköpun þekkingar fyrir einstaklinga, atvinnulífið og samfélagið í heild. Það er ekki síst þess vegna sem mikilvægt er að um þetta sé settur einhver lagarammi vegna þess að þetta er mjög brýnt út frá hagsmunum samfélagsins í heild sinni en að sjálfsgöðu einnig fyrir atvinnulíf og einstaklinga.

Á síðustu árum hefur orðið mikill vöxtur á þessu sviði hér á landi. Margt áhugavert hefur komið fram á sjónarsviðið og er vel gert. Mestur hefur vöxturinn verið varðandi endur- og eftirmenntun fyrir háskólamenntaða og tæknifólk af ýmsu tagi. Þótt einnig hafi orðið mikil þróun varðandi framboð á menntun fyrir fólk með minni menntun hefur það ekki náð að fylgja eftir þróuninni á öðrum sviðum. Þannig gildir að þeir fá mesta endur- og eftirmenntun og fullorðinsfræðslu sem hafa mesta menntun fyrir. Þessi þróun er hættuleg og ýtir undir ójöfnuð ef allir hafa ekki jöfn tækifæri.

Þess vegna þarf að móta stefnu varðandi fullorðinsfræðslu almennt. Skilgreina þarf hverjir eigi að bera ábyrgð á hvaða þáttum hennar og hvernig eigi að fjármagna hana. Slík stefna þarf að fela í sér hvata til að boðið sé upp á sem fjölbreyttasta fullorðinsfræðslu og símenntun og hvata til einstaklinga að sækja sér slíka menntun. Efla þarf fullorðinsfræðslu, endur- og eftirmenntun og gera hana markvissari en nú er, annars vegar út frá almennum þörfum einstaklinga fyrir nýja og breiðari þekkingu og hins vegar út frá þörfum atvinnulífsins fyrir meiri og markvissari þekkingu og hæfni í starfi. Oft fara þessi tvö markmið saman og mikilvægt er að þau fylgist að, en útiloki ekki hvort annað. Þannig styrkir almenn menntun og frístundanám af ýmsu tagi einstaklinga í starfi, um leið og hún eflir þá og eykur möguleika þeirra sem einstaklinga.

Herra forseti. Það er auðvitað mikilvægt að skilgreina hver ber ábyrgð og hvernig fjármagna skuli fullorðinsfræðslu almennt og í því sambandi er rétt að nefna nokkrar hugmyndir:

Í fyrsta lagi. Fullorðinsfræðsla sem miðar að því að efla einstaklinga til að vera fullgildir og virkir þátttakendur í samfélaginu er á sameiginlegri ábyrgð samfélagsins, einstaklinga og atvinnulífsins. Mikilvægt er að samfélagið hafi frumkvæði og hvetji einstaklinga til að sækja sér slíka menntun. Hér geta opinber framlög til fullorðinsfræðslu og einstaklingsbundnir sparnaðarreikningar (menntareikningar) með framlagi frá atvinnurekendum og samfélaginu (í gegnum mótframlög og/eða skattaívilnanir) verið farsæl leið.

Það er rétt, herra forseti, að víkja örlítið að því hvað átt er við með menntareikningum, en það er býsna athyglisverð hugmynd sem m.a. er fjallað um í nokkuð ítarlegri og vandaðri skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Eflingu, Verslunarmannafélag Reykjavíkur og starfsmenntaráð.

Þar segir m.a. um menntareikninga, með leyfi forseta:

„Grunnhugmyndin um menntareikninga byggist á því að tekið er fast hlutfall af launum hvers starfsmanns sem er síðan ávaxtað í séreignarsjóði með skattfríðindum þar til viðkomandi launþegi ákveður að nýta sér innstæðuna til að sækja sér menntun eða þjálfun. Til viðbótar gæti komið framlag atvinnurekanda sem væri þá einnig fast hlutfall af launum starfsmanna. Ef launþegi hefur ekki nýtt sparnaðinn þegar hann fer af vinnumarkaði getur hann nýtt hann sem lífeyrissparnað. Þetta fyrirkomulag er ekki ólíkt fyrirkomulagi viðbótarlífeyrissjóða hér á Íslandi þó þar sé um mun hærri upphæðir að ræða. Hér væri verið að byggja reikninga á því söfnunarkerfi sem nú þegar er til staðar, en það hefur reynst vel og hafa aðilar á vinnumarkaði fengið traust á því.“

Herra forseti. Það er afskaplega mikilvægt að það kerfi sem nýtt yrði í slíku sambandi væri einmitt þannig úr garði gert að traust væri á því, bæði frá launafólki og þeim sem greiða launin.

Ég var að telja upp nokkrar hugmyndir varðandi það hvernig ábyrgð og fjármagn gæti verið almennt í fullorðinsfræðslu, var búinn að nefna fyrstu hugmynd og fer þá yfir í aðra hugmynd:

Endur- og eftirmenntun sem miðar að því að efla almenna tækniþekkingu er á sameiginlega ábyrgð atvinnulífsins, samfélagsins og einstaklinga. Gagnvart þeim sem hafa góðan grunn á þessu sviði hlýtur atvinnulífið sjálft að bera meginþungann. Gagnvart þeim sem standa höllum fæti er nauðsynlegt að samfélagið axli ábyrgðina. Hér gegna fræðslusjóðir og fræðslustofnanir atvinnulífsins lykilhlutverki. Jafnframt þarf að tryggja sérstaklega möguleika þeirra sem hafa verið heima vegna umönnunar barna, verið lengi frá vinnu vegna veikinda eða hafa af öðrum ástæðum lítil og veik tengsl við vinnumarkaðinn. Ábyrgðin gagnvart þessum hópi liggur sameiginlega hjá ríki og sveitarfélögum.

Í þriðja lagi. Endur- og eftirmenntun sem miðar að mjög sértækri verk- og tækniþekkingu í einstökum fyrirtækjum verður að vera á ábyrgð og kostnað fyrirtækjanna sjálfra.

Í fjórða lagi. Fullorðinsfræðsla sem miðar að því að jafna menntunarstig fólks sem komið er á vinnumarkaðinn og auka almennt menntunarstigið í landinu kallar á ríka þátttöku og frumkvæði samfélagsins með þátttöku atvinnulífs og einstaklinga. Þegar vísað er til ábyrgðar og fjármögnunar fullorðinsfræðslu frá samfélaginu er nauðsynlegt að greina hvar ábyrgð og verkaskiptingin á milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna liggur.

Herra forseti. Það er mikilvægt á ýmsum sviðum og hefur því miður oft verið vandmeðfarið hvernig þessi skipting er og meðan ekki er lagarammi um þann þátt er hann einn af þeim sem eru á gráum svæðum. Athyglisvert er ef við skoðum verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hvað varðar skólakerfið að sú skipting er við lýði að sveitarfélögin sjá um leikskóla og grunnskóla en ríkisvaldið um framhaldsskóla og háskóla. Margt bendir til þess að sú skipting sé í raun orðin úrelt og nefni ég þar sérstaklega til framhaldsskólana sem eru allt aðrar stofnanir í dag en þær voru þegar sú verkaskipting var ákveðin og ýmislegt sem bendir til þess að framhaldsskólinn eigi frekar heima hjá sveitarfélögunum. Ég er sannfærður um að í tengslum við fullorðinsfræðsluna mundi það einnig nýtast miklum mun betur því að það mundi á margan hátt einfalda alla fullorðinsfræðslu sem við getum í raun sagt að sé að meginþunga til undir háskólastiginu og þar með væri hægt að einfalda mikið það kerfi sem kemur nálægt fullorðinsfræðslu.

Herra forseti. Það er einnig vert að velta fyrir sér aðferðum og hvaða aðferðir væru líklegastar til að skila árangri. Þar vil ég nefna til svokallað raunfærnimat sem er mikilvægt tæki í fullorðinsfræðslu, ekki aðeins fyrir þá sem hafa litla grunnmenntun og þurfa að bæta sig á því sviði. Raunfærnimat er mikilvæg aðferð til að meta styrkleika og veikleika í þekkingu einstaklinga, hvort heldur þegar þeir vilja afla sér frekari menntunar eða við mat á starfshæfni.

Raunfærnimat er eitthvað sem m.a. Norðmenn hafa lagt töluverða vinnu í og má segja að þeir séu í fararbroddi hvað það varðar. Í þeirri skýrslu sem ég vitnaði í áðan sem Hagfræðistofnun háskólans vann fyrir Eflingu, Verslunarmannafélagið og starfsmenntaráð segir m.a. um raunfærnimatið eða raunfærnikerfið, með leyfi forseta:

„Norðmenn hafa verið í fararbroddi hvað varðar sameiginlegt skráningarkerfi svokallað raunfærnikerfi þar sem frammistaða einstaklinga í námi og þjálfun og færni í vinnu er metin að verðleikum. Markmiðið er að setja upp kerfi sem skráir og metur hæfni, getu, reynslu og þekkingu einstaklinga sem hægt er að nýta á vinnumarkaði og í skólakerfinu. Raunfærni tekur til allrar menntunar og skipulags náms, sjálfsnáms og þekkingar sem aflað er í vinnu, félagsstörfum, námskeiðum og með almennri þátttöku í samfélaginu. Kerfinu er ætlað að vega upp á móti síbreytilegum störfum vinnumarkaðarins og auka samkeppnishæfni fyrirtækja.“

Til eru fleiri aðferðir sem hægt er að hugsa sér og m.a. eru færnimöppur önnur aðferð til að halda utan um þekkingu og reynslu fólks. Þar er safnað saman upplýsingum um menntun og starfsreynslu viðkomandi, úr formlega menntakerfinu, óformlega menntakerfinu og annars staðar frá.

Raunfærnimat og færnimöppur eru þannig mikilvæg verkfæri til að greina þekkingu starfsmanna og mannauðinn í atvinnulífinu og samfélaginu almennt. Þau eru einnig mikilvæg tæki til að efla sjálfsvitund einstaklinga þar sem þessi verkfæri eru til þess fallin að draga fram styrkleika viðkomandi.

Þá er mikilvægt að þróa náms- og kennsluaðferðir sem best henta við fullorðinsfræðslu almennt og fyrir þá sem hafa stutta skólagöngu eða hafa ekki stundað nám í langan tíma.

Herra forseti. Ég sagði áðan að margt hefði gerst á undaförnum árum hér á landi í fullorðinsfræðslu og margt er mjög vel gert. En það skortir heildarramma utan um þetta þannig að bæði sé hægt að hafa þessa starfsemi markvissari og ekki síður að jafna tækifæri fólks til fullorðinsfræðslu.

Það er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins leika afskaplega stórt hlutverk og hafa á margan hátt verið í fararbroddi þegar kemur að símenntun og ýmiss konar fullorðinsfræðslu vegna þess að félagsmönnum er boðið upp á margs konar möguleika til að bæta við sig þekkingu og auka hæfni í gegnum ýmsa starfsmennta- og fræðslusjóði. Fyrir ekki alls löngu eða í desember 2002 var stigið afskaplega metnaðarfullt skref í þá átt að þróa heilsteypt kerfi símenntunar á Íslandi með stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífisins sem er samstarfsverkefni Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Eitt af markmiðum hennar er að vinna skipulega að því að meta og votta óformlegt nám og starfsþjálfun í samstarfi við fræðsluaðila og atvinnulífið. Meðal annars vegna þess er nauðsynlegt, og ég veit ekki betur en þessir aðilar hafi einmitt eftir því kallað, að um þetta séu sett ákveðin rammalög þannig að það verði skilgreint betur en nú hvert sé hlutverk hvers og eins.

Herra forseti. Ekki er síður rétt að minnast á símenntunarmiðstöðvar sem hafa risið mjög víða um land og hafa sinnt margs konar fullorðinsfræðslu fyrir fólk með litla menntun og síðan menntun af margs konar tagi. Einnig hefur þróast í kringum þessar stöðvar mjög víða háskólanám eða þjónusta við fólk í háskólanámi á því svæði þar sem stöðvarnar eru starfræktar. Þetta skiptir allt saman afskaplega miklu máli og það þarf að láta þetta allt saman vinna sem allra best saman því svo virðist vera að í raun sé um hálfgerðan frumskóg að ræða þegar kemur að þessum þætti menntakerfisins. Það er ekki við hæfi, eins og ég sagði hér áður, þegar við höfum nú þegar lög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla að þessi eyða skuli vera í löggjöfinni, þ.e. að engin löggjöf sé um fullorðinsfræðsluna vegna þess að það blasir við að þetta er líklega sá þáttur sem skiptir hvað mestu máli þegar við horfum til þess samfélags sem við búum við núna. Málum er þannig háttað að nauðsynlegt er að fólk stundi einhvers konar nám og afli sér menntunar meira og minna alla ævi.

Þó er rétt að geta þess að á einum stað í lögum er minnst á fullorðinsfræðslu. Það er í lögum um framhaldsskóla frá 1996. Á hana er minnst í X. kafla og gengur raunverulega út á það að framhaldsskólum er heimilað að koma að þessum þætti og m.a. heimilað með samþykki menntamálaráðherra að stofna í samvinnu við ýmsa aðila svokallaðar fullorðinsfræðslumiðstöðvar. Það er álit okkar hv. þingmanna sem flytjum þessa tillögu að þetta sé ekki nægjanlegt og að eðlilegt sé að fela menntamálaráðherra að leggja fram á þingi fyrir lok þessa þings, þ.e. fyrir 1. mars árið 2006, frumvarp til laga um fullorðinsfræðslu.