Vöktun og bókhald yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 09. nóvember 2005, kl. 18:04:52 (1290)


132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Vöktun og bókhald yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

200. mál
[18:04]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Umhverfisstofnun, áður Hollustuvernd ríkisins, hefur haldið utan um bókhald vegna útstreymis gróðurhúsalofttegunda og bindingar hér á landi frá 1996. Það er skylda hvers lands samkvæmt ákvæðum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar að fylgjast með losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfisstofnun skilar árlega í gegnum umhverfisráðuneytið tölulegum upplýsingum um útstreymi og bindingu til skrifstofu loftslagssamningsins ásamt ítarlegri skýrslu. Þar er að finna hverju sinni tölur um útstreymi og bindingu kolefnis frá árinu 1990 til þess árs sem nýjustu tölur liggja fyrir um. Í gegnum árin hafa verið gerðar nokkrar breytingar á því bókhaldi í ljósi nýrra reglna um útreikninga af þessu tagi og nýrri og betri upplýsinga um ástand mála hér á landi. Í meginatriðum má bókhald okkar teljast gott þó að vissulega megi bæta ýmis atriði.

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og ríki sem aðild eiga að loftslagssamningnum og Kyoto-bókuninni vinna stöðugt að úrbótum á aðferðafræði við mælingar og útreikninga af þessu tagi til að gefa sem fyllsta mynd af útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og gagnaðgerðum með bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti. Á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar sem hefst 2008 verða gerðar ítarlegri kröfur en áður um gæði bókhaldsins. Nauðsynlegt er því að bæta enn frekar vinnu við bókhaldið og er unnið að því. Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að gerð frumvarps til laga sem miðar að því að búa í haginn fyrir gildistöku Kyoto-bókunarinnar. Þar verða væntanlega ákvæði um vöktun og bókhald vegna útstreymis og bindingar kolefnis í gróðri. Auk bókhaldsins ber Íslandi að setja á fót skráningarkerfi fyrir útstreymisheimildir áður en fyrsta skuldbindingartímabilið hefst 2008. Viðræður eru hafnar við erlenda aðila um að setja upp svipað kerfi og Norðmenn og mörg ríki Evrópusambandsins hafa tekið í notkun eða munu taka í notkun á næstunni.

Unnið er að skráningu og bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti í skógrækt og landgræðslu í stofnunum landbúnaðarins. Samkvæmt upplýsingum úr landbúnaðarráðuneytinu er skráningarvinna um bindingu kolefnis með skógrækt vel á veg komin en skemmra hvað landgræðslu varðar. Unnið verður áfram í þessum málum með það að markmiði að hægt verði að telja alla bindingu kolefnis í skógrækt og landgræðslu Íslandi til tekna á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar.

Í september 2004 sendi skrifstofa loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna úttektarnefnd til Íslands til að fara yfir útstreymis- og bindingarbókhaldið hér á landi. Hún skilaði síðan skýrslu nokkrum mánuðum síðar ásamt ráðleggingum um það sem betur mætti fara í bókhaldinu. Úttektarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að bókhald Íslands um útstreymi gróðurhúsalofttegunda og bindingu væri að stórum hluta fullbúið og í samræmi við leiðbeiningar loftslagssamningsins en kom með nokkrar minni háttar ábendingar. Veigamesta athugasemdin laut að óformlegu fyrirkomulagi bókhaldsins en það er ekki skilgreint í lögum eða reglugerðum heldur byggist á óformlegu samstarfi stofnana. Í væntanlegu frumvarpi til laga um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar verða ákvæði sem taka á þessum málum og setja framkvæmd bókhaldsins í fastari farveg.

Nefndin benti einnig á nokkur atriði sem lúta að aðferðafræði bókhaldsins og nákvæmni áætlana um útstreymi frá landbúnaði og urðunarstöðum. Þá óskaði nefndin eftir því að gerð verði grein fyrir óvissumörkum í tölum varðandi einstaka liði í bókhaldinu og að komið verði upp gæðaeftirliti á því.

Í árlegri upplýsingaskýrslu Íslands til skrifstofu loftslagssamningsins árið 2005 er gerð grein fyrir áætlunum Íslands til að bregðast við athugasemdum úttektarnefndarinnar. Þar er bent á að við sumum ábendingum hafi þegar verið brugðist svo sem með því að meta útstreymi metans og köfnunarefnisoxíðs frá eldsneytisbrennslu og vegna notkunar leysiefna og ýmissa framleiðsluvara. Þá er hafin vinna við að formfesta fyrirkomulag bókhaldsins í lögum og að breyta framsetningu á upplýsingum um orkumál í samræmi við það sem nefndin telur æskilegt. Þá er að lokum þess getið að verið sé að skoða með hvaða hætti megi framkvæma ýmsar tæknilegar lagfæringar á bókhaldinu svo sem að meta skekkjumörk í einstökum liðum, bæta gæðaeftirlit, bæta aðferðafræði við mat á útstreymi frá vegasamgöngum, bæta upplýsingar og aðferðafræði varðandi útstreymi frá úrgangi og bæta mat á útstreymi vetnisflúorkolefna og brennisteinshexaflúoríðs.