Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 17:33:23 (1468)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[17:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frammistaða hæstv. ráðherra talar auðvitað fyrir sig sjálf. Ekki er svarað einni einustu spurningu heldur snúið upp í að spyrja mig hvort ég sé einkaeignarsinni eða þjóðnýtingarsinni. Og ég á að fara að svara því hér sem alls ekki kom inn á mitt mál. Ég ræddi ekki á nokkurn hátt um hvort þetta hefði einhver áhrif á þann rétt, (Iðnrh.: Málið snýst um það.) nýtingarrétt sem bændur hafa samkvæmt gildandi löggjöf. Var ég ekki að enda við að hrósa vatnalögunum frá 1923? Var ég ekki að segja að ég vildi þá nálgun í lögum að það væri talinn upp sá hagnýtingarréttur sem menn hefðu? Það þýðir ekki að að færa þurfi einkaeignarréttarlegt vald út yfir vatn sem fyrirbæri á jörðinni. (Iðnrh.: … bera kápuna á báðum öxlum.) Hæstv. ráðherra hefur greinilega alls ekki … (Iðnrh.: Bera kápuna á báðum öxlum.) Bera kápuna á báðum öxlum? Hæstv. ráðherra er bara að reyna að einfalda þessa hluti og draga þá saman með þeim hætti að það er auðvitað ekki boðlegt.

Sér hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra alls engan mun á því fyrirkomulagi sem verið hefur í lögunum og hinu að fara þá einkaeignarréttarlegu leið sem hér er lögð til? (Gripið fram í.) Þetta er ekki sami hluturinn, hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. ráðherra að kynna sér þetta betur og vita hvort ekki rofar þá til.