Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 18:10:54 (1480)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[18:10]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vatn fyrir alla, sagði hv. þingmaður áðan, vatn fyrir alla en ekki hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur. Hvers lags málflutningur er þetta? Erum við nokkuð að leggja fram frumvarp sem á að veita Valgerði Sverrisdóttur einokun á vatni í þessu landi? Við erum akkúrat að verja eignarrétt bænda, eignarrétt landeigenda í landinu. Það er fróðlegt að heyra hvað fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í landbúnaðarnefnd Alþingis hefur að segja um það. Hér er verið að festa í sessi réttindi bænda hvað varðar eignarréttinn á þessum auðlindum, rétt sem hefur verið að fullu virtur síðan 1923.

Hv. þingmenn tala svo í hinu orðinu um að það eigi að kæla málið. Hv. þingmanni til upplýsingar þá mundi það ekki breyta neinu hvað varðar eignarrétt bænda. Við viljum standa vörð um eignarrétt bænda en Vinstri grænir boða þjóðnýtingu í þessum málum, þjóðnýtingu og ekkert annað.