Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 19:23:38 (1506)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú kom að því, sem ég hélt að ekki mundi verða, að ég tek til varna fyrir frumvarpið gegn árásum hv. 10. þm. Norðvest. Mér finnst „vatnsleg“ ágætt orð og skýringin á því nokkuð góð. Mér sýnist að í frumvarpinu haldi höfundar þess áfram að nota fornleg og væn íslensk orð um ýmsa hluti.

Hins vegar verð ég að taka undir með honum um skýringuna á „mannvirki“, að það er ákaflega undarleg skýring, sem er svona, með leyfi forseta: „... hvers konar manngerðar tilfæringar, t.d. hús, brú eða virkjun.“

Ég hef ekki flett þessu orði upp en það er undarlegt og ég vona að hæstv. ráðherra svari þessari athugasemd þingmannsins í lokaræðu sinni í kvöld eða síðar eftir því hvernig það verður.

Mig minnir að hjá Þórbergi Þórðarsyni hafi líka verið „tilfæringar“ en þær hafa verið með öðrum hætti en þessar, nefnilega tilfæringar milli pilts og stúlku. Ég vona að mannvirki séu ekki nefnd í þess konar skilningi.

Gallinn við þetta frumvarp er reyndar að þótt margt sé í því vel orðað og samið þá hefur, einkum við endurflutning þess, láðst að lesa það yfir aftur og setja inn það sem átti að setja inn, eins og ég vakti athygli á áðan og hæstv. ráðherra hefur enn ekki svarað.