Vatnalög

Mánudaginn 14. nóvember 2005, kl. 19:54:23 (1513)


132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[19:54]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um að þetta dugi til þess að ekki sé hætta á því að tillit hafi verið tekið til þess sem stendur í þeim fylgiskjölum sem fylgja með frumvarpinu varðandi lögskýringar, því að Lögmannafélagið benti skýrt á að taka þyrfti skýrt fram, eða ég skildi það þannig, að hér væri einungis um formbreytingu að ræða. Ég held því að það þurfi þá að skoða vel í nefndinni hvernig megi koma þeim hlutum þannig til skila að það verði ekki misskilið og að eignarhaldið sem hér er verið að setja á vatnið fari að hafa öðruvísi áhrif en þær lagagreinar sem hafa gilt fram að þessu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fjallað verði þannig um það í nefndinni að menn finni einhverja sameiginlega leið til þess að þeir hlutir verði skýrir.

Ég vil svo segja að ég get ekki fallist á að það geti nokkurn tíma verið skýr landamerki sem miðast við vatnsbakka sem er ákvarðaður þannig að það ræðst af því hvernig grassprettan er á hverjum tíma hvar þessi bakki er. Þó svo menn hafi vandað sig þá finnst mér að menn hafi ekki dottið niður á mjög skýra lausn á því að finna þessum landamerkjum stað ef menn þurfa að notast við slíkar skilgreiningar.

Ég bendi enn á að sú tækni er orðin til í landinu að hægt er að ganga mjög skýrt frá landamerkjum.