Fjáraukalög 2005

Þriðjudaginn 15. nóvember 2005, kl. 16:33:59 (1567)


132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:33]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst þetta. Það sem af er þessari öld eru að meðaltali um 20 milljarða kr. frávik milli fjárlaga og ríkisreiknings. Það er náttúrlega ekki viðunandi. Fjárlögin verða að gefa raunsanna mynd af því sem fram undan er og af því ástandi sem við búum við. Það er ekki hægt að nota fjárlögin áfram til að fegra hér mynd af samfélagi sem er ekki til.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til fjáraukalaga eru auðvitað fjölmörg atriði og fjölmörg dæmi um framlög eða útgjöld sem hefði vel mátt staðsetja í fjárlög annaðhvort á síðasta ári eða í fjárlögum fyrir árið 2006. Vil ég þar nefna eitt afar brýnt verkefni sem ráðast á í og það er viðhald og endurbætur á Þjóðleikhúsinu, og ég segi þó fyrr hefði verið. Lagt er til í fjáraukalögum að 250 milljónum verði varið til viðhalds og endurbóta á Þjóðleikhúsinu. Þetta er auðvitað verkefni sem átti að ráðast í fyrir löngu. Þetta er verkefni sem menn verða að leggja fram heildstæða mynd af hvernig þeir ætla að framkvæma. Ég tel ekki rétt að koma með í fjáraukalög 250 millj. kr. útgjöld vegna endurbóta á Þjóðleikhúsinu þegar því hefur verið svarað þannig til í menntamálanefnd að ekki muni nást að eyða því fé eða nota það á þessu ári til endurbótanna. (Gripið fram í.) Það eru slík dæmi sem ég vil nefna hér sem ég tel að við verðum að gera bragarbót á. Ég vil heyra hvernig hv. þm. Birkir J. Jónsson lítur á þennan lið.