Veggjöld

Miðvikudaginn 16. nóvember 2005, kl. 13:48:32 (1640)


132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[13:48]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr í fyrsta lagi: „Hvað líður stefnumörkun um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja, þ.e. veggjöld, sem ráðherra hefur ítrekað boðað að sé í vændum?“

Svar mitt er svohljóðandi:

Stefnumörkun um gjaldtöku vegna samgöngumannvirkja er í fullkomlega eðlilegum farvegi í tengslum við endurskoðun 12 ára samgönguáætlunar sem nú er í gangi og verður lögð fyrir Alþingi á haustþingi 2006. Í því samhengi vil ég benda á álit nefndar um gjaldtöku og einkaframkvæmd til fjármögnunar samgöngumannvirkja sem skilaði áliti sínu í febrúar síðastliðnum. Sú skýrsla, ásamt öðru sem komið hefur fram um þessi mál, verður höfð til hliðsjónar í áframhaldandi vinnu við það mikilvæga verkefni að endurskoða gjaldtöku vegna notkunar samgöngumannvirkja.

Ástæða þess að ég hef þurft að margítreka, eins og kemur fram í fyrirspurninni, að þessi stefnumörkun sé í vændum er sú að þingmenn, þar á meðal hv. fyrirspyrjandi eru sí og æ að spyrja um sama hlutinn. Þeir fá auðvitað sama svarið við þeim annars eðlilegu spurningum á hinu háa Alþingi.

Í annan stað spyr hv. þingmaður:

„Hvenær kemur til framkvæmda boðuð lækkun virðisaukaskatts á veggjald í Hvalfjarðargöngum?“

Svar mitt er:

Ég verð að benda hinum reynda þingmanni Jóhanni Ársælssyni á að rétt væri að hann beindi spurningum um virðisaukaskatt til fjármálaráðherra. En þar sem þingmaðurinn gerir, við skulum kalla það svo, þessi mistök mun ég reyna að svara honum. Málið er á forræði fjármálaráðherra sem hefur svarað þessari fyrirspurn á þeim nótum sem hér greinir: Boðuð lækkun virðisaukaskatts á veggjaldi í Hvalfjarðargöngunum mun koma til framkvæmda með lækkun neðra þreps virðisaukaskattsins. En breytingar á virðisaukaskattskerfinu eru til skoðunar milli stjórnarflokkanna. Ég get á þessum tímapunkti ekki nefnt tímasetningar en vísa til þess sem sagt hefur verið um það mál, m.a. á Alþingi.

Vegna umræðu sem komið hefur upp undanfarnar vikur varðandi Sundabraut og að farin verði leið einkaframkvæmdar við lagningu hennar vil ég koma á framfæri sjónarmiðum mínum, þar sem ég veit að alþingismenn víða af landinu hafa áhuga á að heyra afstöðu mína til þess að leggja Sundabraut alla leið upp á Kjalarnes með aðstoð einkaframkvæmdar. Í tengslum við þau áform hefur vaknað umræða um það hvort leggja eigi gjald á þá sem aka vestur og norður land tvisvar á stuttum vegkafla. Að mínu mati kemur það ekki til greina. Tvær leiðir eru færar við að leggja Sundabraut sem einkaframkvæmd, eins og gert var með Hvalfjarðargöngum. Annars vegar er að fara leið notendagjalda eins og gert hefur verið í Hvalfjarðargöngunum, þar sem notendur samgöngumannvirkja greiða beint fyrir notkun hverju sinni. Hin leiðin er svonefnd skuggagjaldaleið þar sem framkvæmdaaðilinn fær greitt frá ríkinu fyrir þá umferð sem fer um mannvirkið. Sú aðferð, skuggagjaldaleiðin, kallar ekki á greiðslu vegfarenda þegar þeir aka um mannvirkið.

Verði notendagjaldsleiðin valin, sú aðferð sem Spölur fékk leyfi til að nota, verður það að mínu mati ekki gert nema með uppstokkun gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum þannig að aðeins verði gjaldtaka á einum stað á þessum vegkafla. Það er útfærsluatriði hvernig að því yrði staðið en það er ljóst að frekari gjaldtaka er ekki auðveld, eins og hv. fyrirspyrjandi þekkir mætavel.

Ég tel hins vegar skuggagjaldaleiðina vera góðan kost. En eins og ég sagði fyrr í svari mínu þá hefur sú nálgun í för með sér að greitt yrði úr ríkissjóði til framkvæmdaaðila í samræmi við notkun brautarinnar þegar þar að kæmi. Sú leið hefur ekki verið farin í vegamálum hér en er vel þekkt erlendis. Ég tel að hún komi vel til greina og að ekki eigi að þurfa að vefjast fyrir mönnum að velja þann kost. Aðalatriði málsins er hins vegar að við getum nýtt okkur einkaframkvæmdarkostina en gjaldtakan yrði með öðrum hætti en við þekkjum úr Hvalfirðinum.