Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 17. nóvember 2005, kl. 11:49:33 (1771)


132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:49]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að biðja hv. þingmann afsökunar. Framtíðarsýnin var mannréttindi. Virðulegi forseti, ég áttaði mig ekki á að þetta væri eitthvað sem Samfylkingin hefði verið að uppgötva. Ég bara óska Samfylkingunni til hamingju með þetta. Það er ánægjulegt að þetta sé komið inn (Gripið fram í.) í framtíðarsýnina.

Ég heyri að nokkrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru algjörlega að fara á taugum núna (Gripið fram í.) sem er auðvitað ekki gott. Hins vegar (Gripið fram í.) eru það ekki lengur nokkrir, virðulegi forseti, sem eru að fara á taugum, hér eru allir að fara á taugum.

(Forseti (RG): Ég bið þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Hér segir hv. þingmaður: Ég kom upp og skilgreindi vá og varnir landsins. Bíddu, fyrirgefðu, þingmaður kom og sagði að hann hefði ekki hugmynd um hvernig ætti að skilgreina varnarhagsmunina og vildi endilega fara og skoða þá, eftir allan þennan tíma. Þingmaðurinn sagði að við værum að fara af áhrifasvæði Bandaríkjanna yfir til Evrópu. Ég vek athygli á að þessi hv. þingmaður kom með eina vitlausustu hugmynd sem hefur nokkurn tíma komið fram, taldi að við gætum náð varnarsamningi við Frakkland. (Gripið fram í.) Hún upplýsti þetta fyrir nokkru síðan.

Virðulegi forseti. Þetta kom fram í umræðu fyrir nokkru síðan. Ég get ekki annað séð en að hv. þingmaður sé enn á þeirri braut þegar hún talar um að við kunnum að eiga öryggissamstarf í framtíðinni í Evrópu og segir að við séum að fara af áhrifasvæði Bandaríkjanna yfir á áhrifasvæði Evrópu. Þetta er það sem hv. þingmaður sagði.

En aðeins út af Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Ég vek athygli á því að þróunarríkin hafa barist harkalega fyrir því að fá aðgang að mörkuðum okkar. Þau hafa sérstaklega gert það inn á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ef menn halda því fram að það módel sem Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur sett upp, sem m.a. hefur gert að verkum að þessar þjóðir geta sótt rétt sinn (Forseti hringir.) til dómstóla, hafi brugðist þá held ég að menn séu mjög á mjög hæpnum forsendum í málflutningi sínum.