Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 17. nóvember 2005, kl. 12:13:09 (1776)


132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:13]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að unga kynslóðin í Framsóknarflokknum sé í vaxandi mæli að horfa til Evrópu. Mér sýnist á máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að það gæti skapast ákveðin samstaða millum Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins um þetta grundvallaratriði í íslenskum utanríkismálum. Það er gleðilegt. Mér þótti líka vænt um að heyra að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur njósn af því innan Sjálfstæðisflokksins að þar sé vaxandi fylgi við Evrópusambandið líka. Þá er hugsanlegt að það verði bara eftir einn flokkur, öflugur að vísu í andstöðu sinni við ESB á vinstri vængnum, og síðan forusta Sjálfstæðisflokksins.

Ég varð undrandi á því að hv. þingmaður skyldi lýsa því yfir að hún styddi stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi samningaviðræður við Bandaríkjamenn. Það vill svo til að hæstv. forsætisráðherra hélt ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins þar sem hann nánast henti köpuryrðum til hæstv. utanríkisráðherra og forvera hans í starfi fyrir það hversu illa Sjálfstæðisflokkurinn hefði haldið á samningaviðræðunum við Bandaríkin. Staðreyndin er auðvitað sú að það er að verða sögulegt hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að klúðra samningum um varnir Íslands við Bandaríkin. Það er ákaflega merkilegt. Ég er viss um að það skýrist hér í dag. En mér finnst það auðvitað skrýtið með hvað einmuna fáránlegum hætti þær samningaviðræður hafa verið keyrðar eða látnar liggja í láginni af hálfu forustu ríkisstjórnarinnar.

Ég lýsi svo depurð minni yfir því að jafnöflugur stjórnmálamaður og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir skuli ekki taka undir kröfuna um bann við fangaflutningum og skuli í reynd taka undir linku hæstv. utanríkisráðherra varðandi þá svívirðu sem notkun Íslands fyrir fangaflutninga er.