Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 21. nóvember 2005, kl. 18:00:36 (1981)


132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hér er kannski vonum seinna komið frumvarp til laga um breytingar á fyrirkomulagi innheimtu olíugjalds og kílómetragjalds. Ég held að engum hafi dottið í hug að menn hafi höndlað sannleikann endanlega þegar gengið var frá þeirri löggjöf og það varð loksins að veruleika að taka upp olíugjald í stað kílómetragjalds, að vísu ekki nema að hluta til eins og niðurstaðan varð. Upphaflega hafði alltaf verið ráð fyrir því gert að þarna yrði um hreina kerfisbreytingu að ræða og olíugjald kæmi í staðinn fyrir kílómetragjald. Það voru og eru ýmis rök fyrir því í sjálfu sér að haga innheimtunni þannig að skattleggja eldsneytisnotkunina. Það getur verið jákvætt að reyna að stýra þróuninni í þá átt að spara þarna orku eins og kostur er. En niðurstaðan varð önnur eins og kunnugt er. Hér eru komnar ýmsar tillögur til lagfæringa eða breytinga á þessu fyrirkomulagi, að sögn til þess að eyða vandræðum og sortera skilgreiningavandamál sem upp hafa komið, m.a. vegna þess að flokkun bifreiða í tollskrá er ekki alltaf góður mælikvarði á það nákvæmlega til hvers þær eru svo notaðar að endingu.

Ég segi fyrir mitt leyti nú við 1. umr. málsins að æskilegt hefði verið að fá frekari fylgiskjöl og gögn með frumvarpinu. Úr því að málið kemur inn til þingsins á annað borð hefðu gjarnan mátt fylgja því, að mínu mati, einhvers konar skýrsla eða úttekt á því hvernig reynslan hefur verið þann tíma sem olíugjaldið hefur verið við lýði. Enda þótt ekki sé kominn ýkja löng reynsla á það er hún þó einhver til staðar nú þegar. Með svipuðum hætti t.d. og hæstv. iðnaðarráðherra er hér samkvæmt lögum skyldaður að leggja fyrir þingið skýrslu um þróun raforkumála í tengslum við þær kerfisbreytingar sem þar hefðu orðið hefði hæstv. fjármálaráðherra gjarnan mátt, kannski með liðsinni samgönguráðherra, leggja einhver gögn fyrir, því að nú er a.m.k. að byrja að komast á það reynsla hvernig þetta kemur út fyrir hvern og einn aðila.

Ég vil sérstaklega spyrja um útkomu vörubíla í þessu sambandi sem eru yfir tíu tonn og lenda í því að borga bæði kílómetragjald og olíugjald og eru í ýmsum sérhæfðum verkefnum eins og t.d. í snjómokstri. Mér er sagt af þeim sem þannig hagar til um að þetta bitni mjög tilfinnanlega á þeim bílum sem borga olíugjald og kílómetragjald. Þeir eyða mjög mikilli olíu við moksturinn sem er orkufrekur og eru á samningum sem í sumum tilvikum lágu fyrir með föstu verði settu af Vegagerðinni og ákaflega lítið svigrúm er fyrir þessa aðila að hnika þar neinu til. Hér er einnig nefnt fyrirbærið götuhreinsibifreiðar sem ég tel nú að séu önnur tæki, þ.e. ekki snjómoksturstæki heldur sópar og einhver slík tól. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er mönnum ljóst hvernig þessi hópur kemur út? Eru einhverjar áætlanir um að mæta sérstaklega stöðu þeirra, þ.e. hefðbundinna vörubíla í þessum flokki sem eru verkefnanna vegna í þeirri stöðu að eyða mjög mikilli olíu og borga þar af leiðandi óvenjuþungan skatt? Er þá ekki hægt að skoða hvort hægt sé með einhverjum sérstökum ráðum að koma til móts við stöðu þeirra? Mundu þeir fá að falla undir ákvæði um sérstaka gjaldskrá? Nú eru þessir bílar í blandaðri vinnu og taka snjómokstursplóginn eða tönnina af og eru þá í ýmsum öðrum verkefnum inn á milli þannig að ekki er kannski einfalt að sjá við því. Verður þá ekki einfaldlega að koma til móts við þennan hóp með sérstökum ráðum, annaðhvort með endurgreiðslu af hálfu fjármálaráðuneytisins eða þá að Vegagerðin komi hreinlega til móts við þá í samningum vegna þess að þeir séu í raun tvískattaðir eða ofskattaðir eða hvað það er?

Það er t.d. alveg ljóst að þessi hópur fær á sig mjög tilfinnanlega skattþyngingu. Olíulítrinn kostaði á milli 40 og 50 kr. áður en gjaldið kom. Hann er núna þessa mánuðina á 105–110 kr. eins og við vitum. Kílómetragjaldið sem var 27 kr. á kílómetra fyrir 26 tonna vörubíl er 10 kr. í dag. Þarna er því skattbyrðin mjög þung. Úr því að menn sjá rök fyrir því t.d. að leyfa sérmeðhöndlun á steypuhræribifreiðum og holræsabifreiðum sem eru talsvert á ferðinni á vegunum og slíta þeim þó nokkuð — þó vissulega sé rétt að þær séu í einhverjum mæli líka tæki sem ganga í lausagangi og eyða þar af leiðandi olíu á köflum án þess að slíta vegunum — þá hlýtur með svipuðum hætti að mega líta til bíla sem neyðast til að nota óvenjumikla olíu við vinnuna sem slíka. Það er orka sem fer í meira en bara að knýja bílinn heldur líka í að vinna aðra vinnu, þ.e. ryðja snjó. Þetta er atriði sem ég held að ráðherra eða kannski hv. þingnefnd þurfi að fara í saumana á.

Frú forseti. Óhjákvæmilegt er líka að nefna annað atriði í þessu sambandi. Það er sú hörmulega frammistaða hæstv. ríkisstjórnar að komast hvorki lönd né strönd með löngu boðaðar og yfirlýstar aðgerðir til að jafna flutningskostnað í landinu. Við því er kannski ekki mikið að gera ef menn vilja halda í þá grundvallarreglu að skattlagningin taki mið af sliti eða álagi á vegina. Það eru rök fyrir því að haga því svo. Ef menn eru ekki tilbúnir til þess að taka afleiðingunum af því t.d. að sú skattlagning lendi að fullu á flutningabifreiðum, eins og hún gerir, og fari út í flutningskostnað og þar með vöruverð, og þeim mun harkalegar sem flutningaleiðirnar eru lengri, verða auðvitað að koma einhverjar aðgerðir þar á móti. Ég hef alltaf litið þannig á að fyrirheitin um aðgerðir til að jafna flutningskostnað hlyti að þurfa að skoða í samhengi við upptöku olíugjaldsins og þeirra áhrifa sem það sannarlega hefur haft. Um það er ekki deilt að það hefur aukið rekstrarkostnað bíla og sérstaklega tilfinnanlega á löngum flutningaleiðum.

Mér finnst alls ekki boðlegt að hæstv. ríkisstjórn komi hér, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra, og segi að því miður hafi ekki tekist samstaða um að gera neitt. Það er ekki samstaða um að gera neitt og skilað auðu. Þetta er ekki boðlegt. Hæstv. fjármálaráðherra hefur væntanlega komið hér eitthvað við sögu því hann heldur um budduna. Er það kannski þar sem þetta strandar? Strandar það kannski hjá hæstv. fjármálaráðherra að gera nokkurn skapaðan hlut hvað það varðar að jafna flutningskostnaðinn í landinu með beinum hætti eins og hugmyndir voru um, þ.e. að endurgreiða hann hreinlega að einhverju leyti miðað við sannaðan útlagðan kostnað? Að vísu var búið að þynna það mjög mikið út. Í síðustu tillögum ráðherra virtist þetta verið komið niður í það að snúast eingöngu um spurninguna um einhverja jöfnun á flutningskostnaði vegna framleiðslustarfsemi, þ.e. að endurgreiða í einhverjum mæli flutningskostnað vegna aðfanga í framleiðslustarfsemi á landsbyggðinni og svo aftur flutning á framleiðsluvörunni á markað. Það kemur náttúrlega ekki til móts við t.d. þann gríðarlega flutningskostnað sem veltur út í vöruverð í smásöluverslun á landsbyggðinni og hefur þá náttúru sem augljóslega er innbyggð í hlutina að þetta er þeim mun meiri skattlagning sem fjær dregur vörudreifingarmiðstöðvum landsins sem eru fyrst og fremst á Faxaflóasvæðinu. Þetta fyrirkomulag og þessi gríðarlega hækkun flutningskostnaðar sem sannarlega hefur orðið á síðustu fimm til tólf árum og menn þekkja mjög vel í afskekktari landshlutum eins og á Vestfjörðum og norðausturhorni landsins, er engan veginn ásættanlegt. Þetta er náttúrlega þvílík viðbótarskattlagning á þessi svæði að það engan veginn verjandi.

Ef tala á um eitthvert jafnræði í þessum efnum þá hlýtur það að vera markmið í sjálfu sér að reyna að hafa kerfið þannig að menn borgi í grófum dráttum sambærilegan skatt alls staðar á landinu. Það er nefnilega ekki svo. Það er einmitt öfugt. Afskekktustu landsvæðin eru sérstaklega skattpínd vegna þess að þessir kostnaðarþættir velta allir inn í vöruverðið. Og hvað gerist svo að lokum? Jú, virðisaukaskatturinn til hæstv. fjármálaráðherra leggst ofan á allt saman á endanum. Í reynd borga menn því miklu hærri virðisaukaskatt í afskekktustu og fjarlægustu landsvæðunum. Ef jafna ætti slíkt ætti prósentan í endanlegri álagningu vöruverðs á Bakkafirði að vera um 16–18% en ekki 24,5. Þá kæmi virðisaukaskattskerfið kannski nokkurn veginn hlutlaust út. En því er ekki að heilsa. Þetta vita allir menn og allir sjá. Það tekur ekki nema fimm mínútur að átta sig á að þetta er ranglátt skattkerfi og svo fjandsamlegt þessum svæðum sem hafa fengið á sig meira og minna allar þessar breytingar á undanförnum árum algjörlega óbættar.

Fyrir síðustu alþingiskosningar lofuðu stjórnarflokkarnir því alveg sérstaklega og hátíðlega — okkur er það mjög í minni, sérstaklega sem vorum í framboði í Norðausturkjördæmi af því að þar fór fremstur í flokki hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra — á hverjum einasta framboðsfundi, held ég, voru endurtekin loforðin um að fínar skýrslur væru komnar fram og þetta væri alveg rétt að koma. Sagt var að spurningin væri bara um útfærslu á því hvernig flutningskostnaðurinn yrði jafnaður og endurgreiddur. Síðan er liðið þetta mikið á þriðja ár og ekki bólar á efndum og minna en það. Hæstv. ráðherra hefur komið í þennan ræðustól og bara gefist upp, sagt að ekki væri samstaða um að gera neitt, því miður. Ég man ekki hvort hæstv. ráðherra sagði að henni þætti það leitt. Ég ekki einu sinni viss um það. Hún sagði þetta bara svona, að ekki væri samstaða um neitt.

Hver er ásteytingarsteinninn? Veit hæstv. fjármálaráðherra mögulega eitthvað um það? Hvað hefur hæstv. ráðherra við okkur að segja um þessi vandamál sem segja má að séu innbyggð í þetta kerfi? Ég get að mörgu leyti verið því sammála að langeinfaldast er að bregðast við með beinum ráðstöfunum af því tagi að grandskoða kerfið, kostnaðarreikna það og meta. Hver er t.d. í raun viðbótarskattlagningin sem fólgin er í því fyrirkomulagi að taka olíu- og kílómetragjaldið eins og gert er þannig að það helst inni hvort heldur er í gegnum olíunotkunina eða kílómetrana? Þá verður skatturinn náttúrlega þeim mun meiri sem fjarlægðirnar eru meiri. Svo tekur hæstv. fjármálaráðherra virðisaukaskatt ofan á allt saman eins og kunnugt er.

Mér finnst ekki hægt annað en að nefna þessi vandamál. Ég veit ekki hvort hv. efnahags- og viðskiptanefnd er tilbúin til þess að leggjast aðeins yfir þetta mál og fara ofan í það. Kannski fáum við einhverja gáfulega umfjöllun frá nefndinni um þessa hluti (Gripið fram í.) og helst náttúrlega aðgerðir. Ef ríkisstjórnin er algerlega ófær um þetta, ef hún er bara lömuð í málinu, verður auðvitað að taka á því með öðrum hætti. Þá verður að leysa hana af hólmi og Alþingi á sjálft að ganga í málið. Þetta er alveg sáraeinfalt. Í Noregi er t.d. bara framvísað fylgiskjölum, að ég best veit, og síðan bara samkvæmt reikningum, nótum, kemur flutningskostnaðurinn fram, er gefinn upp. Þá er líka allt á tæru. (ÖS: Það er betri ríkisstjórn þar en hér líka.) Jú, að vísu, miklu betri núna. En það þurfti nú ekki einu sinni hana til. Ég held að Norðmenn hafi beitt svona jöfnunaraðgerðum lengi og reyndar fleiri. Þetta er tiltölulega einfalt í framkvæmd. Spurningin snýst bara um vilja.

Frú forseti. Ég vildi sérstaklega nefna þetta tvennt til sögunnar, þ.e. spurninguna um útkomu þeirra vörubíla sem eru í sérstökum verkefnum, hvort hægt sé að taka með einhverjum hætti á því í tengslum við afgreiðslu þessa máls og hvað sé að frétta af aðgerðum eða ekki-aðgerðum ríkisstjórnarinnar í sambandi við jöfnun flutningskostnaðar.