Fjáraukalög 2005

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 13:40:08 (2447)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[13:40]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann, vegna frétta sem bárust í hádeginu sem við í þingsölum höfum því miður kannski ekki fengið miklar upplýsingar um. Samkvæmt þeim fréttum virðist að einhverju leyti hafa verið skorið á þann hnút sem kom á starfsemi Byggðastofnunar. Nú á að hefja 3. umr. um fjáraukalög ársins 2004 en ekkert bólar á því að Byggðastofnunarvandinn sé tengdur því á nokkurn hátt. Því er óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann hvort vandi Byggðastofnunar sé leystur án þess að það tengist á nokkurn hátt fjáraukalögum fyrir árið í ár. Frú forseti. Það verður fróðlegt að heyra svar hv. þingmanns við þessu.

Það er ekki síður athyglisvert að við í fjárlaganefnd höfum ekki frekar en fyrri daginn fengið þær upplýsingar, sem við höfum kvartað undan skorti á í æðimörg ár, þ.e. um stöðu stofnana. Annars vegar vantar upplýsingar um stöðu stofnana í lok september þegar fjáraukalagafrumvarpið eða fjárlagafrumvarpið er lagt fram. Síðan vantar áætlaða stöðu stofnana í lok ársins til að hægt sé að sinna þeirri vinnu sem gert er ráð fyrir að fjárlaganefnd skili.

Þessar upplýsingar hafa ekki borist nefndinni frekar en fyrri daginn. Það er nauðsynlegt að spyrja hv. þingmann hvort hann geri ráð fyrir því að rætast muni úr þeim upplýsingaskorti. Nú fer hver að verða síðastur þar sem 3. umr. fjárlaga hefst í næstu viku. Berist upplýsingarnar ekki fyrir þann tíma þá hlýtur minni hluti fjárlaganefndar að taka sér rétt til að óska eftir því að þeirri umræðu verði frestað þar til þær upplýsingar liggja fyrir. Við þessu er nauðsynlegt, frú forseti, að fá svör í upphafi þessarar umræðu.