Fjáraukalög 2005

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 13:43:02 (2449)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[13:43]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að rétt reynist hjá hv. þingmanni að þessar upplýsingar liggi fyrir á fundi nefndarinnar á morgun. Ég fagna því ef svo verður því að það yrði þá í fyrsta skipti sem slíkt gerist áður en umræðu lýkur. Auðvitað þarf þetta að vera þannig að upplýsingarnar liggi fyrir þegar vinnan hefst en ekki þegar henni er að ljúka.

Varðandi málefni Byggðastofnunar þá er athyglisvert að hæstv. iðnaðarráðherra boðar til blaðamannafundar sama dag og við ræðum frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005. Ef verið er að taka á vanda Byggðastofnunar þá hlýtur a.m.k. að hvarfla að mönnum að það hljóti að tengjast að einhverju leyti því ári sem nú er að líða. En það er auðvitað venjan hjá sumum hæstv. ráðherrum að vilja sem minnst við þingið ræða. Þeir sækja fremur í aðra farvegi og þá virðast blaðamannafundir betur til þess fallnir en þingsalurinn að ræða málin.

Það hlýtur að vekja sérkennilegar kenndir hjá okkur í salnum að iðnaðarráðherra boði lausn á vanda Byggðastofnunar á blaðamannafundi þegar við erum að ljúka þessari umræðu án þess að nokkur tillaga um slíkt komi inn í fjáraukalög ársins. Það kemur hins vegar ekki á óvart, frú forseti, vegna þess að umgengni ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á þingi um fjáraukalög og fjárlög er með þeim hætti að fjárreiðulög virðast aldrei hvarfla að því ágæta fólki.