Fjáraukalög 2005

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 14:42:25 (2459)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:42]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég minnist þess og við, ég og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, vorum sammála þegar málið var afgreitt úr fjárlaganefnd eða fjárlög fyrir næsta ár voru afgreidd til 2. umr. Við gerðum báðir fyrirvara um þennan málaflokk að á honum ætti að taka og vildum sjá það gert áður en málið væri afgreitt til 3. umr. Hv. þingmaður kom inn á að þarna þurfi verulegt fjármagn til og að forgangsraða þurfi en hann nefndi einnig að nefnd væri búin að skoða þessi mál um grunnþætti og síðan hafi önnur nefnd verið sett til að skoða nákvæmlega sömu grunnþætti og komist að sömu niðurstöðu. Okkur vantar ekki meiri nefndarvinnu til að taka á ýmsum grunnþáttum sem þarna er um að ræða, alls ekki. Okkur vantar bara aðgerðir.

Hv. þingmaður minntist líka á heimahjúkrun. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni að auðvitað eigum við að efla heimahjúkrun svo fólk geti búið heima hjá sér sem allra lengst. En það liggja alveg nægar upplýsingar fyrir til að taka á ákveðnum grunnþáttum í rekstri elli- og hjúkrunarheimila og það getum við gert nú þegar.