Fjáraukalög 2005

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 15:01:06 (2467)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hlutirnir hafa að einhverju leyti snúist við, nú hafa menn áhyggjur og er það vel. En hér í ræðunni gætti þó fullmikillar bjartsýni og mikillar ánægju með stöðu fjármála.

Hv. þingmaður hefur miklar áhyggjur af stöðu sveitarfélaga. Ég get tekið undir það og þá sérstaklega hef ég áhyggjur af stöðu smærri sveitarfélaganna sem hafa farið mjög illa út úr fiskveiðióstjórninni sem flokkur hv. þingmanns hefur staðið fyrir — þar hefur orðið samdráttur í atvinnu. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé kominn tími til að skoða hvort ekki eigi að kostnaðarmeta frumvörp og reglugerðir sem fela í sér kröfur á hendur sveitarfélögunum, hvort ekki sé orðið tímabært að sveitarfélögin komi í meira mæli að slíkri vinnu. Það eru ekki einungis frumvörp sem leggja auknar skuldbindingar á herðar sveitarfélaganna, sem kosta stórfé, heldur einnig reglugerðir sem flæða yfir í stríðum straumum, jafnvel frá Evrópu, á sviði umhverfismála. Ég heyri hér í þingsalnum að margir hafa áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna og sérstaklega þeirra smærri sem hafa farið halloka. Í ljósi þess spyr ég hvort ekki sé rétt að fara yfir stöðu þessara mála.

Ég vil einnig í framhaldi af þessari umræðu ræða áhyggjur manna af stöðu stjórnsýslunnar. Vestur á Ströndum, í Hólmavík, er einungis sýnd ráðdeildarsemi. Það er verið að skera niður í sveitarfélögum sem standa illa varðandi löggæslu. En ýmislegt annað bólgnar út. Í víkingasveitina fóru t.d. 100 milljónir á þessu ári og 100 miljónir árið áður. En alltaf er verið að klípa þjónustu af sveitarfélögum sem standa illa.