Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum

Þriðjudaginn 29. nóvember 2005, kl. 15:37:33 (2479)


132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[15:37]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum. Meginefni frumvarpsins snýr að því að heimilt verði að afla sönnunargagna með leit að undangengnum dómsúrskurði hjá þeim sem grunur leikur á að hafi brotið gegn tilteknum hugverkaréttindum. Frumvarpið tekur mið af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir til að tryggja vernd hugverkaréttinda, einkum með aðild að TRIPS-samningnum svokallaða sem er viðauki við samning um Alþjóðaviðskiptastofnunina og lýtur að vernd hugverkaréttinda í viðskiptum. Nokkur vafi hefur leikið á því hvort íslensk löggjöf fullnægi tilteknum ákvæðum samningsins og hefur hliðstæðri löggjöf á Norðurlöndum verið breytt þannig að mælt er sérstaklega fyrir um úrræði til öflunar sönnunargagna vegna brota á hugverkaréttindum.

Við mat á því hvort þörf sé á sérstöku úrræði fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að afla sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn hugverkaréttindum verður að líta til þess að oft er unnt að eyða eða koma undan sönnunargögnum um brotið á svipstundu. Stendur rétthafi þannig gjarnan höllum fæti gagnvart þeim sem brotið hefur gegn réttindum hans og valdið honum tjóni. Þykir því rétt að löggjöf sé hagað þannig að gætt sé að sérstöku eðli þessara mála svo komið verði í veg fyrir að rétthafi verði fyrir réttarspjöllum.

Með frumvarpi því sem nú liggur fyrir er lagt til að heimilt verði að afla sönnunargagna ef sá sem telur sig rétthafa þeirra hugverkaréttinda sem talin eru upp í frumvarpinu gerir sennilegt að brotið hafi verið gegn þeim rétti. Þarf gerðarbeiðandi þannig að sýna fram á ákveðnar líkur fyrir því að brot hafi verið framið en ekki er gerð krafa um að hann færi fram örugga sönnun fyrir brotinu. Gert er ráð fyrir að málsmeðferð hefjist á því að gerðarbeiðandi sendi beiðni um öflun sönnunargagna til héraðsdóms og er meginreglan sú að héraðsdómari tilkynni málsaðilum stað og stund þinghalds.

Lagt er til að heimilt verði að víkja frá skyldum til að tilkynna gerðarþola um þingfestingu málsins ef hætta leikur á að sönnunargögnum verði komið undan, þeim eytt eða breytt eða ef dráttur vegna tilkynningar getur valdið réttarspjöllum fyrir gerðarbeiðanda. Með hliðsjón af því hve oft er, eins og áður segir, á svipstundu unnt að eyða eða koma undan sönnunargögnum um ætlað brot gegn hugverkaréttindum má gera ráð fyrir að þessari heimild verði beitt í allnokkrum mæli.

Til að tryggja hagsmuni gerðarþola í slíkum tilvikum er lagt til að honum verði heimilt að krefjast endurupptöku málsins fyrir héraðsdómi innan tiltekins frests og skal sýslumaður ekki afhenda gerðarbeiðanda sönnunargögn fyrr en að liðnum þeim fresti. Fallist héraðsdómur á beiðni um heimild til að afla sönnunargagna er gert ráð fyrir að gerðarbeiðandi sendi úrskurðinn til sýslumanns sem framkvæmir í kjölfarið leit hjá gerðarþola. Að því marki sem nauðsynlegt er til að tryggja sönnun á ætluðu broti er gert ráð fyrir að sýslumaður geti lagt hald á hluti eða skjöl, tekið myndir og afritað gögn. Gert er ráð fyrir að gerðarbeiðandi höfði mál á hendur gerðarþola á grundvelli þeirra sönnunargagna sem aflað hefur verið eftir ákvæðum frumvarpsins innan fjögurra vikna en ella skal hann skila sönnunargögnum. Lagt er til að gerðarþoli eigi rétt á skaðabótum vegna aðgerða á grundvelli frumvarpsins hafi ekki verið leitt í ljós að brotið hafi verið gegn þeim hugverkaréttindum sem frumvarpið tekur til og er um hlutlæga bótaábyrgð að ræða.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umræðu.