Útbýting þingskjala

Föstudaginn 02. desember 2005, kl. 15:09:14 (2530)


132. löggjafarþing — 33. fundur,  2. des. 2005.

Útbýting þingskjala.

[15:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég fá að heyra hjá forseta hvernig háttað sé almennt varðandi frumvarp til fjárlaga. Það var afgreitt við 2. umr. fyrir nokkru og kemur síðan til 3. umr. Á fundi í fjárlaganefnd í morgun var tilkynnt að frumvarpið kæmi ekki inn í nefndina fyrir 3. umr., heldur yrði afgreitt til 3. umr. án þess að það færi til fjárlaganefndar aftur. Ég mótmælti því, taldi bæði marga efnisflokka vera eftir og að gögn sem hefði verið beðið um hefðu verið að skila sér fram á síðasta dag. Auk þess er þetta eitt af stærstu málum þingsins og væri eðlilegt að það kæmi inn í nefndina með formlegum hætti fyrir 3. umr. og að nefndarmenn, meiri eða minni hluti eftir atvikum, gætu skilað nefndarálitum með eðlilegum hætti. Við þessu var ekki orðið og málið látið ganga áfram til 3. umr.

Ég ritaði formanni nefndarinnar bréf þar sem ég spurði hvort það væri löglegt og lyti almennum vinnuhefðum þingsins að afgreiða fjárlagafrumvörp svona. Ég óskaði einnig eftir að fá skilgreinda málaflokka sem hafði verið um rætt að yrðu á dagskrá nefndarinnar og um fjallað áður en frumvarpið færi til 3. umr. Ég spyr því hæstv. forseta hvort það sé lögleg meðferð á málum eins og fjárlagafrumvarpi að vísa því til 3. umr. án þess að það komi inn í nefnd.