Útbýting þingskjala

Föstudaginn 02. desember 2005, kl. 15:11:50 (2532)


132. löggjafarþing — 33. fundur,  2. des. 2005.

Útbýting þingskjala.

[15:11]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessar upplýsingar. Þá verður þeim væntanlega komið til forsvarsmanna fjárlaganefndar. Þeim hlýtur að hafa verið ókunnugt um að það væri ekki einungis hefð, heldur líka beinlínis bundið í þingsköpum að fjárlagafrumvarp gengi formlega til nefndar einnig milli 2. og 3. umr.

Það sem ég vil hér ræða, frú forseti, er það að hér eru boðuð, og var útbýtt á þessum fundi, tvö hlutafélagafrumvörp hæstv. ríkisstjórnar og í fréttum hefur verið að undanförnu að væntanleg séu fleiri hlutafélaga-, einkavæðingar- eða markaðsvæðingarfrumvörp frá ríkisstjórninni, svo sem eins og mögulega um Ríkisútvarpið og hlutafélög í opinberri eigu. Ég held að það sé algerlega óumflýjanlegt að á Alþingi fáist umræða um stefnumörkunina í þessum efnum og að færi gefist á að ræða við hæstv. ríkisstjórn um það einkavæðingarfár eða -æði sem hér er greinilega skollið á. Ríkisstjórnin verður auðvitað að gera grein fyrir stefnu sinni í þeim efnum. Það þýðir ekki að tína inn málin eitt af öðru og kasta sem sagt sprengjunum þannig. Ég held að það væri miklu skilvirkara að við tækjum formlega umræðu um stefnumörkun í þessum efnum og að ríkisstjórnin reyndi þá að rökstyðja framgöngu sína í þeim. Ég óska hér með formlega eftir því að fá umræðu utan dagskrár um stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum einkavæðingarmálum öllum saman hvað varðar það einkavæðingaræði sem greinilega er skollið á.

Varðandi rafmagnsmálin sem slík sérstaklega tek ég undir með hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni að það eru full efni til að ræða um þau, um hækkun á raforkuverði og um allt sem hefur verið að gerast í þeim efnum í kjölfar markaðsvæðingar hæstv. iðnaðarráðherra, áður en menn fara að taka einstök mál fyrir, ég tala nú ekki um stór deilumál eins og það augljóslega verður ef á að fara að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag.