Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Mánudaginn 05. desember 2005, kl. 18:19:55 (2593)


132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Stofnun íslenskra fræða -- Árnastofnun.

331. mál
[18:19]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðum um þetta mikilvæga mál fyrir fínar athugasemdir og ábendingar sem ég geri ráð fyrir að hv. menntamálanefnd muni fara mjög gaumgæfilega yfir og satt best að segja, þótt ég sé ekki alltaf sammála hv. þingmönnum, þá hefur verið athyglisvert og fróðlegt að hlusta á ágætar ábendingar allra þeirra sem hafa tekið til máls og mér finnst mikilvægt og ítreka það að nefndin fari vel yfir allt sem fram hefur komið við 1. umr. En ég vil hins vegar mótmæla því að þetta mál sé ekki nægilega vel unnið. Eins og margoft hefur komið fram hefur aðdragandinn að þessu máli verið langur og þess hefur sérstaklega verið gætt við samningu þessa frumvarps að allir forstöðumenn sem þetta mál varðar hafi komið að því. Þeir hafa komið með sínar athugasemdir og í rauninni hreint og beint samið sumar greinar sem við lesum og fjöllum um í þessu máli þannig að þess hefur verið gætt til hins ýtrasta að sjónarmið þeirra endurspegli það sem kemur síðan fram í frumvarpinu.

Auðvitað er stóra málið það að á hátíðarstundum erum við sífellt að ræða það hvernig hægt sé að efla íslenska tungu, stuðla að eflingu menningararfsins okkar sem skiptir okkur miklu máli hvernig við getum staðið andspænis þeim áhrifum sem menn oft og tíðum vilja tengja við alþjóðavæðinguna og samskiptin við umheiminn. Ég er einfaldlega sannfærð um að með því að tengja saman þessar fimm stofnanir, sumar hverjar örstofnanir, beina þeim inn í eina öfluga sterka stofnun sem hefur skýrt hlutverk til að varðveita, efla og styrkja þau málefni sem skipta okkur máli, þ.e. íslenska tungu, menningararfinn, söguna okkar, bókmenntirnar, nútíma- sem fornbókmenntir, þá er ég eins og ég gat um sannfærð um að þetta er sú leið sem við eigum að fara. Við eigum að efla og styrkja þessa stofnun og það er einmitt ætlunin með þessu frumvarpi.

Ýmsar athugasemdir hafa verið settar fram og ég reyni að svara hv. þingmönnum í seinni ræðu minni hvernig ég horfi á málið út frá þeim spurningum sem hafa verið lagðar fyrir mig en vil einnig beina því til hv. menntamálanefndar að taka þau málefni til úrlausnar sem sérstaklega brenna á fólki og ég er ekki talin hafa svarað nægilega vel úr þessum ræðustól.

Ég hef sagt það að þetta mál á sér langan aðdraganda þannig að ég get ekki tekið undir það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að þetta væri óðagot og flaustur. Hagsmunirnir eru gríðarlega miklir, það eru hagsmunir íslenskrar tungu og að efla og styrkja okkar sjálfsmynd til lengri tíma til að við getum staðið í samkeppni og samskiptum við aðrar þjóðir og ekki síst að undirstrika mikilvægi Háskóla Íslands. Við verðum að horfast í augu við þann veruleika sem ekki blasir við í háskólaumhverfinu í dag og ekki allir flokkar hafa stutt, það er samkeppni í háskólaumhverfinu. Við erum komnir með fjölbreytta háskólaflóru. Háskólanemendur hafa aldrei verið fleiri en í dag og það eru fleiri háskólar hér en Háskóli Íslands sem hugsanlega kunna að leita samvinnu og samstarfs þessarar stofnunar alveg eins og stofnunin kann hugsanlega að leita samstarfs við aðrar háskólastofnanir. En engu að síður tel ég afar brýnt að mikilvægi Háskóla Íslands í tengslum við t.d. þessa háskólastofnun sé undirstrikað og þess vegna er það háskólaráð sem skipar meiri hluta þeirrar nefndar sem er lögð til í frumvarpinu. Ekki síður er það mikilvægt að tengja þessa stofnun við háskólann að því leytinu til að Háskóli Íslands er sú stofnun sem er í fararbroddi í háskólaumhverfinu til að stuðla að uppbyggingu íslenskrar tungu. Hún sér um kennsluna, hún sér um íslenskukennsluna í háskólanum o.s.frv. og það er afar mikilvægt að þessi mikilvægu tengsl séu undirstrikuð og Háskóli Íslands hafi ríku hlutverki að gegna. Þetta finnst mér ekkert síður mikilvægt að undirstrika í tengslum við þetta mál.

Ég vil líka benda hv. þingmönnum á, og þá sérstaklega hv. þm. Merði Árnasyni, það sem kemur fram í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins varðandi stjórnina. Árið 2000 var gefið út álit nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins um ábyrgð og valdsvið og stjórnun forstöðumanna ríkisstofnana. Eins og hv. þingmaður setti mál sitt fram í þessum ræðustól þá var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo að hér væri verið að miða við eitthvert gamaldags form á stjórnun. Það hefur verið stefnan að fækka stjórnum stofnana og hér hefur verið farin sú leið að hafa ráðgefandi nefnd við Stofnun íslenskra fræða – Árnastofnun en jafnframt er tekið skýrt fram í 4. gr. að það er forstöðumaður stofnunarinnar sem ber ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og önnur fyrirmæli.

Ég vil fara inn á það sem menn hafa rætt um í tengslum við Íslenska málnefnd og athyglisverðar ábendingar hafa verið settar fram í þessum umræðum. Ég vil undirstrika að það er í rauninni verið að ítreka mikilvægi Íslenskrar málnefndar í þessu samhengi. Það er verið að skerpa á hlutverki hennar, verið að fela henni ný hlutverk sem hún hefur m.a. farið fram á. Að mínu mati er líka verið að undirstrika mikilvægi hennar, hún er í rauninni eina nefndin sem heldur sínu hlutverki og um leið er undirstrikað að málnefndin lifir áfram þótt svo starfsemi skrifstofu Íslenskrar málstöðvar færist til hinnar nýju stofnunar þá mun málnefndin sem slík lifa áfram og ekki síst hið mikilvæga hlutverk hennar sem verður aukið og samráðsvettvangurinn verður eftir sem áður mjög breiður fyrir íslenskt mál. Hlutverk hennar er, og ég undirstrikaði það sérstaklega í framsöguræðu minni, m.a. að standa að því sem t.d. snertir erlend samskipti við málnefndir annarra landa þannig að við höfum það alveg á hreinu að íslensk málnefnd lifir áfram. Hennar hlutverk er afar brýnt og mikilvægt og ég tel rétt að menn geri sér grein fyrir því að hlutverk hennar er undirstrikað með þessu frumvarpi og ég sé ekki tilgang í því að hafa sérstakan lagabálk um Íslenska málnefnd. Það er verið að steypa fimm lagabálkum saman, það er verið að steypa saman fimm stofnunum með það í huga að styrkja stöðu tungunnar. Ég tel þetta vera skynsamlegustu leiðina í þá veru og það að fara yfir þær athugasemdir sem forstöðumennirnir höfðu sérstaklega út af þessu og gaumgæfilega fara yfir þær athugasemdir og þær síðan endurspeglast í þessu frumvarpi.

Ég beini því líka til menntamálanefndar að skoða þau atriði sem geta styrkt málnefndina enn frekar en ég tel ekki að það styrki hana að sérstakur lagabálkur verði settur fram heldur miklu frekar að tækifærið verði nýtt eins og hægt er, með þetta frumvarp til umfjöllunar.

Það voru ýmis málefni, ýmsar spurningar eins og að menn hefðu áhyggjur af því að forstöðumaðurinn yrði hugsanlega í fílabeinsturni. Mér finnst þetta nú vantrú á því fólki sem bæði vinnur þarna og mun koma til með að vinna þarna. Ég sé ekki að það auki svigrúm á sjálfstæði stofnunarinnar ef löggjafinn ætlar síðan að njörva niður skipulagið í stofnuninni með ákveðnum deildum. Ég tel rétt að fela forstöðumönnum að móta starfsemi stofnunarinnar og þeir munu að sjálfsögðu vinna þetta í samvinnu við sitt fólk. Í því felast vissulega tækifæri sem við hv. þingmenn sjáum sennilega ekki, nema þeir miklu sérfræðingar sem eru hér innan þingsins og hafa tekið til máls.

Mér fannst hv. þm. Mörður Árnason koma inn á athyglisverðan punkt þegar hann var að velta fyrir sér hugtakinu íslensk menning. Ég get í sjálfu sér tekið undir það að íslensk menning er mjög vítt hugtak og snertir ekki eingöngu bókmenntaarfinn okkar, menningararfinn, eða íslensku tunguna sem slíka heldur er það miklu víðara og mér fannst hv. þingmaður fara ágætlega yfir þann þátt. Í því samhengi vil ég sérstaklega benda hv. þingmanni sem og öðrum á að í 3. gr. er ekki um tæmandi talningu á hlutverki stofnunarinnar að ræða. Ég vil hins vegar vekja sérstaka athygli á því að sú grein var meira og minna samin af forstöðumönnum og færð að tillögum sem forstöðumenn settu fram í vinnu við þetta frumvarp.

Ég vil undirstrika að þarna er ekki um tæmandi talningu að ræða og útilokar á engan hátt nútímabókmenntir frekar en fornbókmenntir.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, fannst mér athyglisvert sem kom fram í lok fyrri ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að eftir að þetta mál hafði verið rætt fram og til baka á mjög faglegan og málefnalegan hátt þá orðaði hann það engu að síður að það ætti að bíða með málið. Ég get ekki skilið það öðruvísi en þannig að þá séu menn á móti málinu sem slíku. Ég tel það afskaplega dapurlegt ef menn ætla að fara að setja sig upp á móti þessu mikilvæga máli, sameiningu þessara fimm stofnana sem hafa það að markmiði að efla íslenska tungu og helst að efla sókn hennar til lengri tíma litið. Við erum að styrkja menningararfinn með þessu og ég tel ekki rétt að fara þá leið að bíða með það þangað til húsið er risið. Þvert á móti tel ég að það muni styrkja stofnunina að menn fari að vinna saman og ræða betur saman, þeir sjái þá betur fyrir sér þau tækifæri sem við þeim blasa við sameiningu stofnananna. Ég er sannfærð um að það er hægt að fá miklu meira, ef svo má að orði komast, út úr þeim stofnunum sem nú eru stakar, örstofnanir sumar hverjar, með því að sameina þær heldur en að hafa þær dreifðar og þess vegna er afar brýnt, virðulegur forseti, í ljósi þess að við erum að fjalla um íslenska tungu ekki bara í þessum þingsal heldur á hátíðarstundum, að við sameinumst um þetta mikilvæga frumvarp. Að sjálfsögðu verður farið gaumgæfilega yfir allar athugasemdir þeirra sem koma á fund nefndarinnar eða hv. þingmanna því við höfum öll metnað til þess að gera þetta mál þannig úr garði að það verði hafið yfir alla flokkapólitík og við sameinumst um að efla og styrkja það sem hefur gert okkur að þjóð fram til þessa, sem er að sjálfsögðu íslensk tunga.