Samræmd stúdentspróf -- frumvarp um Ríkisútvarpið

Þriðjudaginn 06. desember 2005, kl. 10:51:24 (2622)


132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Samræmd stúdentspróf – frumvarp um Ríkisútvarpið.

[10:51]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hefur komið fram í máli hæstv. menntamálaráðherra að hún hefur efasemdir um framkvæmdina á samræmdu prófunum eins og hefur verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu að undanförnu.

Þess ber hins vegar að geta, og nauðsynlegt að rifja það upp, að samræmd próf voru sett í lagatexta á Alþingi 1996 þannig að aðdragandinn að þessu hefur verið býsna langur. Einnig verður að hafa í huga að háskólarnir kölluðu eftir því að þessi samræmdu próf yrðu framkvæmd og það kemur jafnframt fram hjá deildarforsetum háskólans að núverandi stúdentspróf henti ekki vel til að bera saman undirbúning stúdenta og velja á milli þeirra vegna þess að einkunnir úr fjölbrauta- og menntaskólum séu ekki fyllilega sambærilegar.

Til að bregðast við þessu verður þá að finna einhverjar leiðir sem háskólarnir geta sætt sig við til að meta nemendur inn í háskólana. Í máli þeirra hefur einmitt komið fram að þeir telji að samræmd stúdentspróf muni henta vel og gefa mikilvægar upplýsingar um hæfni nemenda. Einhverjar leiðir verður að finna ef breytt verður út af þeirri leið sem nú er í lagatexta hér á þingi og við verðum að finna þá einhverjar aðrar leiðir sem háskólarnir geta sætt sig við til að velja nemendur inn í skólana.

Ég fagna því að hæstv. menntamálaráðherra hefur ákveðið að fara betur yfir málið. Það sem við viljum er auðvitað fjölbreytni og valfrelsi í framhaldsskólunum og það er stefna sem ég held að við eigum að halda okkur við.