Fjárlög 2006

Þriðjudaginn 06. desember 2005, kl. 14:44:46 (2666)


132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:44]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum í 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2006 og ég verð nú segja vegna orðaskipta okkar hv. þingmanns Katrínar Júlíusdóttur að það var hálfleiðinlegt að heyra hvernig hv. þingmaður endaði orð sín, að hún vissi ekki hvers virði orð þess sem hér stendur væru. Ég meina það sem ég segi en hv. þingmaður hefur kosið að trúa því ekki að ríkisstjórnin sé í raun að auka framlög til vaxtabótanna vegna þess að uppistaðan í ræðu hv. þingmanns við 2. umr. var að verið væri að skerða vaxtabæturnar samkvæmt frumvarpinu eins og það leit út þá. Nú hefur komið í ljós að ríkisstjórnin ætlar ekki að fara í skerðingu á vaxtabótunum og hv. þingmaður hefur orðið fyrir gríðarlega miklum vonbrigðum vegna þess að þá hefur sá málflutningur sem hv. þingmaður viðhafði við 2. umr. fallið um sjálft sig. Þetta er staðreynd mála, við stöndum vel að vaxtabótakerfinu í landinu eins og mörgu öðru.

Hæstv. forseti. Þau fjárlög sem við erum að ræða hér endurspegla gríðarlega sterka stöðu ríkissjóðs. Endurspegla að ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi hefur allt frá árinu 1995 haldið fast utan um fjárlög íslenska ríkisins. Skuldir hafa stórlækkað en aftur á móti hefur ekki skort á útgjaldatillögur frá hv. stjórnarandstöðu þar sem hún kemur hér og ber upp útgjaldatillögur ár eftir ár, vinsældatillögur í því skyni að slá ryki í augu almennings.

Ríkisstjórnin hefur þurft að taka erfiðar ákvarðanir í þeim efnum að halda fast utan um ríkissjóð og það hefur tekist. Til að mynda greiðir ríkissjóður 18 milljörðum minna árið 2006 í vaxtagjöld en árið 1998. Það eru gríðarlega miklir fjármunir. Það má gera eitthvað fyrir þá milljarða. Þetta eru fjármunir framtíðarinnar. Hægt er að verja þeim í að standa undir velferðarkerfinu og annað slíkt. En til að ná slíkum árangri hefur þurft að halda fast utan um ríkissjóð og það hefur verið gert. Velmegun er hér mikil. Kaupmáttaraukning almennings hefur verið 50–60% frá árinu 1995. Vanskil heimilanna hér á landi hafa aldrei verið minni. Vanskil fyrirtækjanna hafa aldrei verið minni. Okkur gengur í meginatriðum mjög vel. Skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu hafa ekki verið minni í áratugi. Hér er því vel á málum haldið.

Hæstv. fjármálaráðherra má vera mjög stoltur af því frumvarpi sem hann hefur lagt fram. Tekjuafgangur ríkissjóðs verður 20 milljarðar á árinu 2006, sem er 2% af landsframleiðslu. Aðrar Evrópuþjóðir geta vart státað af slíkum tekjuafgangi. Lánsfjárafgangur á því ári sem nú er að líða verður 105 milljarðar. Við erum því að verja ríkissjóð framtíðarinnar. Við höfum sett gríðarlegt fjármagn í lífeyrissjóðakerfi landsins, lækkað skuldir ríkissjóðs og allt er þetta ávísun fyrir framtíðina, á áframhaldandi velmegun hér á landi. Það er í rauninni furðulegt að hlusta á hv. stjórnarandstöðu, hvernig hún snýr staðreyndum á hvolf. Verið er að auka fjármuni til velferðarmála, til félagsmála, til menntamála en hv. stjórnarandstaða, og þá kannski sérstaklega Vinstri grænir koma hér upp og tala um niðurskurð.

Það virðist vera þannig hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna að ef ríkisstofnanir fá ekki hreinlega allt það sem þær biðja um sé um niðurskurð að ræða. En hvenær hefur það verið í lífinu, hæstv. forseti, að menn fái allt það sem þeir biðja um? Það hefur aldrei verið þannig og það verður aldrei þannig. En þetta virðist vera öðruvísi í hugarheimi Vinstri grænna sem virðast lifa í einhverjum draumheimi sem stenst ekki raunveruleikann. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Af því að hér hlakkar í hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur undir þessari ræðu vil ég undirstrika af hverju núverandi ríkisstjórn hefur náð þeim árangri sem raun ber vitni. Jú, það er öflug atvinnustefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt. Hver var staðan árið 1995? Hér var bullandi atvinnuleysi. Atvinnuleysi er núna í sögulegu lágmarki og gerist það af sjálfu sér. Stjórnarandstaðan hefur verið á móti þeirri atvinnustefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur rekið. Hæstv. fjármálaráðherra kannast vel við það sem fyrrverandi sjávarútvegsráðherra að stjórnarandstaðan hefur barist með oddi og egg gegn því fiskveiðistjórnarkerfi sem við höfum rekið. Aðrar þjóðir sjá nú reyndar ljósið, segja að við búum við fyrirmyndarfiskveiðistjórnarkerfi og aðrar þjóðir hafa viljað fara þá leið sem við Íslendingar höfum valið. Uppbygging stóriðju. Nú er það orðið allt í einu eitthvert skammaryrði í eyrum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar að tala um stóriðju og uppbyggingu stóriðju. Auðvitað er margt annað sem við viljum byggja upp en stóriðju. En hún er nauðsynlegur hluti af þeirri atvinnustefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur rekið.

Þessir þættir ásamt markaðsvæðingu bankanna hafa haldið uppi þeim mikla hagvexti sem hefur einkennt íslenskt þjóðfélag á undanförnum árum. Og hvað gerir svo þessi blessaði hagvöxtur? Hann knýr á kaupmáttaraukningu, eykur velferð íslenskra heimila og eykur velferð ríkissjóðs. Eins og ég fór yfir áðan hafa skuldir ríkissjóðs stórlækkað á tímabilinu og hagur allra hefur batnað.

En stjórnarandstaðan má eiga það að hún er mjög samhent gegn þeirri atvinnustefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið en án þeirrar atvinnustefnu og án þeirrar uppbyggingar sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á sviði atvinnumála værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í í dag. Það væri meira atvinnuleysi ef ríkisstjórnin hefði ekki bætt stöðu atvinnuveganna, bætt samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja, sem m.a. hluti stjórnarandstöðunnar var á móti.

Það er alveg ljóst að ef annar meiri hluti væri á Íslandi í dag, ef annar meiri hluti hefði stjórnað og ráðið hér för frá árinu 1995 værum við í allt öðruvísi málum. Það er náttúrlega ómögulegt um það að segja hvernig staðan væri. En ég fullyrði að sá árangur sem hefur náðst á síðustu tíu árum er nærri því einsdæmi ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir í Evrópu hvað þetta varðar. Alveg sama hvar við komum niður. Hvort sem það er staða íslenskra lífeyrissjóða, staða ríkissjóðs, staða íslenskra heimila eða staða íslenskra fyrirtækja. Auðvitað má alltaf gera betur. Ég er alveg sammála hv. stjórnarandstöðu í því. Auðvitað getum við alltaf gert betur. Hvenær getum við ekki gert betur?

Við höfum farið yfir kjör aldraðra og öryrkja. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fór ágætlega yfir það áðan að kjör aldraðra og öryrkja lækkuðu á árunum 1988 til 1992, stórlækkuðu. Það var kjararýrnun hjá þeim hópi, mun meiri kjararýrnun en hjá almennu launafólki. Kaupmáttur þeirra hefur aukist að meðaltali um 40% frá árinu 1995. Ég er ekki að segja að þessi hópur sé of sæll af kjörum sínum. Það má alltaf gera betur. En það verður að hafa undirstöður til að geta gert betur. Það er það sem núverandi ríkisstjórn hefur tryggt, þ.e. öflugt atvinnulíf í landinu sem styður öflugt velferðarkerfi.

Hæstv. forseti. Barnabætur munu stórhækka á næsta ári. Um 1,2 milljarða. Þetta var sérstakt áhersluatriði okkar framsóknarmanna í aðdraganda síðustu kosninga að auka sérstaklega barnabætur til lágtekju- og millitekjufólks. Þær bætur munu nú hækka um 1,2 milljarða á næsta ári og munu koma sérstaklega þessum hópum til góða. Hv. stjórnarandstaða má þó eiga það að hún hefur ekki farið gegn þeim áformum ríkisstjórnarinnar. En hins vegar hefur stjórnarandstaðan sett sig upp á móti skattalækkunum. Ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu því fyrir síðustu alþingiskosningar að lækka tekjuskattinn. Staðið verður við það að tekjuskattur mun lækka um 1% á næsta ári. En hv. stjórnarandstaða er á móti þeirri fyrirætlan stjórnarflokkanna. Verið er að skila til almennings og fjölskyldufólks í landinu með þessari skattalækkun þeim ágóða og þeirri traustu efnahagsstjórn sem ríkisstjórnin hefur haldið utan um síðustu tíu ár.

Við ræddum mikið um það fyrir síðustu kosningar hvernig við ættum að koma til móts við ungt fólk. Ungt, skuldsett fólk sem er að koma úr námi, er vel menntað jafnvel, eða er bara duglegt fólk sem hefur háar tekjur og fær þess vegna litlar barnabætur og litlar vaxtabætur vegna þeirrar tekjutengingar sem er í þeim kerfum. Þetta fólk hefur ekki haft það of gott. Hefur lent í jaðarsköttunum. Við lofuðum því, a.m.k. við framsóknarmenn, fyrir síðustu alþingiskosningar að við ætluðum að létta jaðarsköttunum af þeim þjóðfélagshópi sem hefur það ekkert of gott. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir ætti að vita það manna best sem fyrrverandi forustumaður námsmanna við Háskóla Íslands að þetta fólk er ekkert of vel sett þegar námi lýkur. En hv. þingmaður vill ekkert koma sérstaklega til móts við það fólk. Við erum að tala um að minnka jaðaráhrif skattkerfisins gagnvart því fólki. Það mun ríkisstjórnin gera, það er ætlan okkar en Samfylkingin vill fara einhverja allt aðra leið.

Hæstv. forseti. Við höfum verið að auka mjög framlög til nýsköpunar- og menntamála. Í tengslum við markaðsvæðingu Landssímans voru fjármunir sérstaklega veittir til uppbyggingar nýsköpunar hér á landi. Vonandi nýtist það öllu landinu, hinu dreifðu byggðum ekki síst. Mjög mikilvægt er að standa vörð um þær byggðir sem standa halloka. Þar vil ég nefna sjávarbyggðirnar. Erfiðleikar eru á þeim svæðum um þessar mundir, sérstaklega á þeim svæðum sem hafa haft viðurværi sitt af rækjuveiðum. Mjög mikilvægt er að ríkisstjórnin standi sig í því að byggja upp atvinnulífið á viðkomandi stöðum og styðji við atvinnuuppbyggingu þar.

Mikið hefur verið rætt um menntamál. Það er staðreynd og við deilum ekkert um það að framlög til menntamála hafa stóraukist í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er meðal annars tilkomið vegna þess að við höfum verið að bæta kjör námsmanna. (Gripið fram í.) Við höfum verið að efla Lánasjóð íslenskra námsmanna og lækka endurgreiðslubyrði lánanna. Það er ósköp eðlilegt að samfylkingarmönnum verði órótt í salnum ef við rifjum upp hve endurgreiðslubyrði námslána var 1991–1995 þegar kratarnir voru við völd. — Ég sé mér til vinstri handar að þar sitja tveir kratar, ég vona að þeir skilgreini sig enn sem krata þó að sumir eigi kannski einhverja aðra fortíð. Ég sé að hv. þingmaður réttir upp þumalputtann og þeir gera það báðir, ég held því að þeir skilgreini sig sem krata. Árin 1991–1995 gerðu kratarnir aðför að íslenskum námsmönnum. Endurgreiðslubyrði námslána þá var gríðarleg. Við höfum lækkað endurgreiðslubyrði um helming, er núna um 3,75% en var um 7% á þeim tíma, sem var náttúrlega skattpíning gagnvart því fólki. Auðvitað kostar þetta sitt. Við flokkum þetta væntanlega sem framlög til menntamála.

Við höfum verið að verja stórauknum fjármunum til háskólasamfélagsins. Það er vel. Samkeppni er á því sviði og aldrei hefur verið meiri gróska í háskólalífi landsmanna en nú um stundir. Öflugir háskólar eru víða um land, í Reykjavík, í Borgarfirði, á Akureyri og í Skagafirði, svo dæmi séu nefnd. Þetta eru gríðarlega öflugar stofnanir og við eigum að halda áfram þessari leið. Við eigum að halda áfram að byggja upp háskólamenntun, t.d. á Austfjörðum og Vestfjörðum, vegna þess að öflug menntun og öflugar menntastofnanir styrkja viðkomandi byggðarlög. Við sjáum áhrifin t.d. á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er stóriðja Eyjafjarðar. Hefur sá skóli liðið fyrir þann stjórnarmeirihluta sem hefur verið hér síðustu tíu ár? Háskólinn á Akureyri hefur margfaldast að stærð á síðustu tíu árum og er glæsileg menntastofnun. Við viljum standa vörð um hana. Menn hafa nefnt húsnæðismál skólans, að vandi sé tengdur húsnæðismálum Háskólans á Akureyri. Unnið er að lagfæringum á því sviði. Ég hef vissu fyrir því. Eins og ég hef áður sagt verður að koma á móts við skólann. Verið er að fara yfir þau gögn sem bárust m.a. frá ríkisendurskoðanda og mikilvægt er að leyst verði úr þeim málum öllum, eins og ég hef áður sagt.

Hæstv. forseti. Aðalatriðið er að það gengur vel í heildina sagt. Það er óþolandi við 1., 2. og 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2006 að heyra hv. þm. Jón Bjarnason tala um niðurskurð. Það er enginn niðurskurður í velferðar- eða heilbrigðismálum. Við erum jafnt og þétt að auka framlögin til þeirra málaflokka og við stöndum okkur vel í því að mínu mati. Íslenskri þjóð gengur í meginatriðum vel en eins og ég hef áður sagt að alltaf má gera betur. Skárri væri það nú stjórnarandstaðan sem fyndi ekki einhverja hluti sem mætti gera betur. Fjárlög íslenska ríkisins eru upp á 330 milljarða og það væri slöpp stjórnarandstaða sem gæti ekki komið með ábendingar um eitthvað sem betur mætti fara þegar 330 milljörðum er úthlutað. Það stendur samt sem áður upp úr að stjórnarandstaðan getur ekki komið sér saman um eitt fjárlagafrumvarp. Hér skilar stjórnarandstaðan útgjaldatillögum til hægri og vinstri og getur ekki komið sér saman um neinn ramma hvað þetta varðar. (Gripið fram í.) Getur ekki komið sér saman um neinn ramma. Svo talar þetta fólk um að það ætli að vinna saman á vettvangi ríkisstjórnar. Getur ekki komið sér saman um eitt nefndarálit um fjárlög ársins 2006. Hér er mjög ósamstæður hópur á ferðinni og það hefur ekki dulist þjóðinni í þessari umræðu að málflutningur hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar hefur verið út og suður. Staðreynd málsins er í 3. umr. um fjárlög ársins 2006 að stjórnarandstaðan fótar sig ekki í þeirri umræðu vegna þess að staða ríkissjóðs er með eindæmum góð. Staða lífeyrissjóðakerfisins er með eindæmum góð og heilt yfir litið gengur öllu íslensku samfélagi vel. Við eigum að fagna því en ekki snúa staðreyndum á haus eins og hv. stjórnarandstaða gerir í hverri ræðunni á fætur annarri og talar um niðurskurð sem er enginn niðurskurður.