Fjárlög 2006

Þriðjudaginn 06. desember 2005, kl. 15:04:56 (2670)


132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:04]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hryggilegt, sagði hv. þingmaður. Ég hef nýlokið ræðu þar sem ég tjáði að unnið væri að leiðréttingu hvað varðar fjárhag Háskólans á Akureyri á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Verið er að fara þar yfir ákveðin gögn. Ég held að í staðinn fyrir að vera með þau stóru orð sem hv. þingmaður viðhafði áðan ættum við að fagna því að þau mál eru til sérstakrar endurskoðunar. Við ættum að fagna því.

Þegar til framtíðar er litið er í öllum áætlunum á vegum menntamálaráðuneytisins gert ráð fyrir að nemendafjöldinn aukist við Háskólann á Akureyri. Framtíðarsýn stjórnvalda hvað Háskólann á Akureyri varðar er mjög skýr. Það á að efla þá stofnun, fjölga á nemendum við stofnunina eins og gert hefur verið á síðustu tíu árum. Það er mjög mikilvægt eins og ég hef áður sagt að standa vörð um þá starfsemi sem hefur eflt, ekki bara Akureyri, heldur allt Eyjafjarðarsvæðið til muna. Ég held að hv. þingmenn ættu að fagna því að þessi mál eru til (Forseti hringir.) skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar.