Fjárlög 2006

Þriðjudaginn 06. desember 2005, kl. 15:15:29 (2679)


132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson mærði mjög stóriðjustefnu Framsóknarflokksins, áltrúna margfrægu. Það kom í sjálfu sér ekki á óvart. En hitt kemur mér alltaf jafnmikið á óvart, að heyra stjórnarþingmenn, ekki síst framsóknarmenn, tala til tekjulægsta hluta íslensks samfélags. Ég hélt sannast sagna, eftir alla umfjöllunina sem við fengum í sumar í fjölmiðlum, um fátækt í röðum aldraðra og öryrkja, erfiðleika atvinnulauss fólks o.s.frv., að við fengjum ekki ræðuhöld eins og við urðum vitni að áðan.

Það er staðreynd, óvefengjanleg staðreynd, að dregið hefur í sundur með þessum hópum annars vegar og öðrum hópum hins vegar. Þetta er staðreynd sem margoft hefur verið sýnt fram á. Ég mun víkja að barnabótum í seinna andsvari mínu.