Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 07. desember 2005, kl. 17:43:17 (2871)


132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:43]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins um rammaáætlunina. Hún var sett fram og virkjunarframkvæmdum forgangsraðað en farið var í stærstu og mestu virkjunina sem sett var efst á lista yfir þær sem komu síst til greina. Ég tel að með framkvæmd eins og hér er lagt upp með líði einhver tími þar til sérskipuð nefnd, hugsanlega með þátttöku allra þingflokka, skili þeirri framtíðarsýn eða áætlun um hvernig úthluta eigi leyfum. Á því tímabili gæti hæstv. iðnaðarráðherra úthlutað þeim rannsóknarleyfum sem henni liggur svo mikið á að koma af stað núna til að halda áfram þeirri brjáluðu stóriðjustefnu og álæði sem gripið hefur Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkurinn lætur teyma sig með, þannig að þegar að því kæmi að vinna eftir einhverjum reglum verða þau nýtingartækifæri farin. (Forseti hringir.) Það verður búið að taka þetta allt saman og virkja.