Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 14:52:45 (2940)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[14:52]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir samúðarkveðjurnar en málið var það að í mörg ár var rætt um að taka upp litaða olíu í staðinn fyrir þungaskatt sem áður var og leiddi til þess að bílar sem óku mjög mikið borguðu eiginlega engan skatt, þ.e. þá var þetta akkúrat þannig að þeir sem óku mjög mikið eftir vegunum borguðu minna og minna eftir því sem þeir óku meira.

Það gerði það líka að verkum að ekki var hægt að flytja inn dísileinkabíla. Á því stóð í mörg ár vegna þess að menn vildu ekki taka upp litaða olíu. Síðan sáu menn fram á að það yrði að gera það til þess að dísilbílar yrðu notaðir hér á landi. Þeir eyða minna og þá var dísilolían líka ódýrari. Því var ákveðið að fara út á þessa braut en menn vissu af þessum vandkvæðum fyrir fram, og sérstaklega þegar menn ætla að reyna að samrýma sjónarmið sem stangast á, eins og það að flutningar út á land megi ekki kosta mikið.