Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 08. desember 2005, kl. 17:00:44 (2971)


132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[17:00]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra um þetta mál og legg áherslu á, eins og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, hversu mikilvægt það er og einnig að það má ekki tefjast. Við erum í svolítið sérstakri stöðu að því leytinu til að þetta er enn eitt mikilvægt samgöngumál í Reykjavíkurborg þar sem ríkið þrýstir á en borgaryfirvöld hafa því miður dregið lappirnar. Alveg eins og annars staðar á landinu þá er mjög mikilvægt að taka tillit til íbúa borgarinnar við þessar vegaframkvæmdir en menn mega samt sem áður ekki fara hér í neinn leik til að tefja málið. Þetta er gríðarlega mikilvæg samgöngubót. Hv. þingmaður hér í salnum efast um það, en þannig er málið. Við þurfum að vanda okkur í þessu máli, leiðir eru ekki trúarbrögð, það skiptir máli fyrir íbúa sem þarna búa í næsta nágrenni að þeir geti unað vel við framkvæmdina. Menn eru að ræða um að fara í gegnum Hamarinn í Grafarvogshverfi, en það finnst mér afskaplega sérkennileg hugmynd, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. En án þess að vilja fara, virðulegi forseti, í smáatriði þá held ég að það skipti afskaplega miklu máli að vinna hér hratt. Þetta er mikilvægt mál og það má ekki tefja það. Það er auðvelt að ganga þannig frá málum að allir geti verið sáttir við það. Það er afskaplega ánægjulegt að ríkisstjórnin hafi haft forgöngu í málinu eins og raun ber vitni og við skulum vona að við sjáum glæsilega Sundabraut lagða á allra næstu árum.